138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

reglugerð um strandveiðar.

[13:13]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mættur í salinn þannig að það ætti að vera mögulegt fyrir hæstv. ráðherra að koma á framfæri þeim upplýsingum sem við köllum hér eftir. Ég vek athygli á því, í fullri vinsemd, að við erum að afgreiða þetta mál núna, veiðarnar ættu að geta hafist á morgun miðað við texta frumvarpsins. Til þess að það sé hægt þurfa að liggja fyrir reglugerðir, síðan þarf að fara fram auglýsing.

Hæstv. ráðherra hlýtur að geta sagt okkur frá því í örstuttu máli með hvaða hætti hann hyggist beita reglugerðarvaldi sínu. Við höfum gagnrýnt harðlega aðferðina við þessa lagasetningu. Það er öðruvísi frá þessu máli gengið núna en var á síðasta fiskveiðiári þegar strandveiðunum var hrundið úr vör. Hér er fitjað upp á nýmælum, miklar reglugerðarheimildir opnaðar fyrir hæstv. ráðherra og það er ekki til of mikils mælst af löggjafarsamkomunni að þessar upplýsingar liggi fyrir þegar við erum að fara að greiða atkvæði um þessa lagasetningu. (Forseti hringir.) Við erum hér í mikilli þoku um þetta mál og hæstv. ráðherra verður að upplýsa um það.