138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

reglugerð um strandveiðar.

[13:16]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er nú hálfslegin yfir þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað varðandi þær upplýsingar sem þingmenn koma með, að hér eigi að fara að samþykkja lög, galopin lög, og svo eigi eftir að setja reglugerð á grundvelli þeirra. Ekkert er fast í hendi sem þingmenn hafa heyrt um en strandveiðar eiga að hefjast á morgun. Ég vil minna á það, frú forseti, (Gripið fram í.) í mestu vinsemd, það er þessi atriði sem ég sem þingmaður hef gagnrýnt síðan ég settist inn á þing, að í þessari stofnun er verið að setja lög með galopnum ákvæðum, lög sem stríða jafnvel gegn stjórnarskrá. Ég minni á að það eru óteljandi mál sem hafa farið fyrir umboðsmann Alþingis, þar sem er úrskurður um að reglugerðir hafa verið settar í ráðuneytunum án lagastoðar, frú forseti. Ég mótmæli því enn og aftur að löggjafarvaldið sé fært út í ráðuneytin.