138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

reglugerð um strandveiðar.

[13:18]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Þakka þér fyrir, frú forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram, auðvitað ber hæstv. ráðherra að upplýsa þingið um hvernig hann hyggst beita því reglugerðarvaldi sem er verið að veita honum. Með því að veita honum þetta vald er þingið í rauninni að framselja ráðherranum lagasetningarvald. Það er mjög mikið traust sem þingið sýnir ráðherra þar. Hæstv. ráðherra verður af því tilefni að sýna þinginu fram á að hann rísi undir því trausti. Það gerir hann auðvitað með því að upplýsa þingið um hvernig hann hyggst beita því reglugerðarvaldi sem hann vill að þingið treysti sér fyrir.

Það hefur mikið verið rætt um breytt vinnubrögð á Alþingi. Menn vilja ýta leyndarhyggjunni til hliðar og hafa allt uppi á borðum. Nú getur hæstv. ráðherra, sem hefur tekið undir þessi sjónarmið, staðið við stóru orðin og upplýst þingið um hvernig hann (Forseti hringir.) ætlar að rísa undir því trausti sem hann ætlast til að þingið sýni sér.