138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[13:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið fjallar þetta mál um strandveiðar. Það er talsvert opin heimild til ráðherra eins og við höfum reynt að benda þingheimi og alþjóð á. Þótt við framsóknarmenn séum tilbúnir að fallast á margt þarna og séum stuðningsmenn þess að strandveiðar séu hluti af fiskveiðikerfi okkar, eru í það minnsta þrjú atriði í þessu frumvarpi sem gera það að verkum að við getum ekki samþykkt það. Í fyrsta lagi er samráðsnefnd að störfum sem væri kannski rétt að hinkra eftir. Í öðru lagi eru heimildir ráðherra til þess að fara að vild með túlkanir í lögum allt of víðtækar. Í þriðja lagi höfum við bent á það og erum með breytingartillögur þess efnis að kvótinn sem þar er settur inn er tekinn út fyrir sviga á þessu ári en hann verður tekinn af öðrum og verður svo endurúthlutað á næstu árum. Það teljum við vera mikinn galla við þetta frumvarp.

Að lokum, vegna orða hv. þm. Róberts Marshalls hér áðan um (Forseti hringir.) að hér megi ekki minnast á rannsóknarskýrslu Alþingis, held ég að við ættum að fara að læra af henni strax en enn á eftir að draga mikinn lærdóm af þeirri skýrslu.