138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[13:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við framkvæmd strandveiðanna á síðasta fiskveiðiári var mikið talað um að læra ætti af reynslunni. Meðal annars kom fram að svæðaskiptingin sem stuðst var við á þeim tíma mistókst algjörlega. Öll rök hníga að því að hverfa frá þessari svæðaskiptingu, hafa hafsvæði sem eitt veiðisvæði í þessu tilliti, fyrir utan það að hugsunin á bak við þetta frumvarp er almennt sú að reyna að opna aðgengi að veiðunum. Þess vegna hníga engin rök að því að hafa hér svæðaskiptingu sem þar að auki er vel varðveitt leyndarmál hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og við höfum ekki hugmynd um hvernig á að líta út. Þess vegna leggjum við til að horfið verði frá þessari vitlausu svæðaskiptingu en hins vegar verði aflanum skipt niður á einstaka mánuði.