138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[13:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga felur það einfaldlega í sér að opna heimild til þeirra sem kjósa að hefja strandveiðar en hafa síðan af því hagsmuni að geta horfið frá veiðunum til þess að stunda aðrar veiðar. Þetta geta t.d. verið skötuselsbátar, svo sá frægi fiskur sé nú nefndur hér enn einu sinni til sögunnar í þingsölum. Þetta geta verið minni bátar sem hentar að stunda aðrar veiðar á síðar á tímabilinu. Eins og frumvarpið er úr garði gert er gert ráð fyrir því að menn geti hafið þessar veiðar hvenær sem er, en hins vegar er girt fyrir að menn geti lokið þeim þegar þeim hentar.

Þetta fyrirkomulag leiðir til minni sveigjanleika og minni hagræðingar. Ég veit að vísu að það er yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr sveigjanleika og hagræðingu í sjávarútvegi. Ég trúi ekki öðru en að þeir sem hafa eitthvað við það að athuga styðji okkur í því að reyna að hafa þessa sjálfsögðu opnun, sem er sjálfsagt réttlætismál, en hverfi frá þeim þvergirðingshætti sem er í hugmyndum hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra.