138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

veiðieftirlitsgjald.

371. mál
[13:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að benda á þann ágalla á frumvarpinu sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson er búinn að benda á og ég tek undir. Mig langaði að bæta við tveimur atriðum sem jafnframt mætti velta upp. Þetta eru auðvitað ágætistekjur fyrir þær hafnir sem fá þessar tekjur. Mér er ekki kunnugt um að leitað hafi verið til þeirra hafna um hvort þessar tekjur standi undir auknum kostnaði. Jafnframt er í frumvarpinu sjálfu leitað til fjármálaráðuneytisins eins og jafnan er gert um hvaða áhrif þetta hefur á ríkissjóð. En eins og svo ansi oft áður var ekki leitað til sveitarfélaganna um álit á kostnaðarauka við þetta frumvarp þótt hérna sé einmitt verið að fjalla um stofnanir sveitarfélaga, þ.e. hafnarsjóði.