138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér stóra ljósabekkjamálið og ég vildi koma í andsvar við hæstv. ráðherra. Það er svo margt sem er hættulegt og það væri einfalt að uppræta allar hættur í heiminum með því að banna þær. En ég held að þetta sé ekki svona einfalt og ég hef ákveðnar efasemdir um að hægt verði að framfylgja þessu banni. Við vitum um eitt og annað sem er bannað undir ákveðnum aldri en er ekki virt.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig þessu verður framfylgt. Ég sé í greinargerðinni að heilbrigðisfulltrúum er ætlað að hafa eftirlit með þessu og vildi gjarnan fá að vita hvernig þeir ætla að gera það.

Í öðru lagi mundi ég gjarnan vilja spyrja — ráðherra gerði kostnaðarmatið að umtalsefni og þetta ætti ekki að hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð: Ætlar heilbrigðiseftirlitið að taka að sér þetta eftirlit ókeypis, þær merkingar og annað sem þarf að fara í, að það verði líka gert frítt? Ég hef líka efasemdir um það.

Ég held að sú ræða sem hæstv. ráðherra flutti hér áðan sýni kannski fram á að þetta bann sé í rauninni óþarft. Hæstv. ráðherra rakti hér ágætlega þann árangur sem náðst hefur með fræðslu — ég held að það sé mun vænlegri leið til árangurs. Hún vísaði í að ekki væru nein fermingartilboð á ljósastofunum núna, sem ég tel mjög jákvætt. Það hefur þá sýnt sig að þessi fræðsla hefur skilað sér.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þessari fræðslu hafi verið beint til foreldra. Ég held að við sem foreldrar berum ábyrgð á því að börnin okkar (Forseti hringir.) taki sér ekki það fyrir hendur sem geti skaðað þau og því ætti að beina fræðslunni þangað.