138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:05]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur fyrir þessar spurningar og athugasemdir. Hún spyr hvernig framfylgja skuli banni ef af verður? Því er til að svara að í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eru ákvæði um hvernig því skuli framfylgt og heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og heilbrigðisfulltrúar sveitarfélaga hafa eftirlit með starfsemi sem heyrir þar undir, og þar á meðal er þessi rekstur. Eftirlit þessara aðila er kostað með eftirlitsgjaldi sem viðkomandi rekstraraðilar greiða. Mjög hart er gengið eftir því að það sé í beinu samræmi við kostnað við eftirlitið og á ekki að vera meira þannig að ef einhver kostnaður verður af auknu eftirliti á þessu sviði leggst hann á þá sem eftirlitið er haft með.

Heilbrigðiseftirlitið og þeir aðilar sem ég nefndi áðan hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir heimildir til þess að áminna, til þess að gefa frest til úrbóta, til þess að stöðva starfsemi og til þess að afturkalla starfsleyfi, en einnig til þess að setja á dagsektir ef ekki er orðið við reglum, reglugerðum, lögum eða tilmælum.

Ég átta mig ekki á því hvaða merkingar hv. þingmaður var að spyrja um. Væntanlega er þetta spurning um að þeir sem reka ljósastofur kanni aldur þeirra sem kaupa sér þjónustuna eins og víða er gert í samfélaginu.