138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður verður nú hálfmáttlaus að vera hér á Alþingi á föstudegi, ræða hér aldursbann í ljósabekki, þegar verið var að sprengja sprengjur í héraðsdómi í morgun og heimili landsins eru að brenna upp. Ég fór yfir það í ræðu áðan að hér þarf að forgangsraða. Þessi ríkisstjórn þarf að forgangsraða. Hvað er hér í forgrunni, hverjum þarf að bjarga og hverjum á að hjálpa? Það er með ólíkindum hvernig mál eru sett fram hér á Alþingi og nú kemur hæstv. heilbrigðisráðherra fram með ljósabekkjabann fyrir fólk undir 18 ára aldri. Það skal jú ná til þeirra sem starfsleyfi hafa. Gott og vel, þetta er atvinnurekstur, en ég bendi á að nokkur heimili í landinu eru með sólbekki heima hjá sér. Þetta frumvarp nær líklega ekki til þeirra nema að það séu einhverjir sem eiga að fara að athuga það mál.

Það kemur fram á bls. 2 í greinargerðinni, með leyfi forseta, orðrétt:

„Þess ber að geta að í könnun sem gerð var í desember 2009 á vegum Lýðheilsustöðvar um viðhorf til lagasetningar um bann við ljósabekkjanotkun ungmenna undir 18 ára aldri kom fram að yfir 72% þátttakenda væru hlynntir slíkri lagasetningu.“

Þetta er kannski ástæða þessa frumvarps. Það væri óskandi að ríkisstjórnin láti fara fram skoðanakönnun á því hvort ekki eigi að fella niður um 20–40% af skuldum heimilanna. Þeirri spurningu mundu 98% svara með jái og þá færi ríkisstjórnin kannski að aðhafast eitthvað.

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, þar sem hún nefndi Áfengisverslun ríkisins og þá útsölustaði sem selja tóbak: Hér er verið að setja 18 ára aldurstakmark á þá sem mega nota ljósabekki. Ætlast ráðherrann til að þessu verði fylgt eftir með því að þeir sem vinna á ljósastofum þurfi að vera orðnir fullra 18 ára eins og kveðið er á um í (Forseti hringir.) lögum við öðru aldursbanni?