138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:24]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það hefur verið talað svolítið um Alþingi í samfélaginu eins og gengur og gerist og umræðan hefur svolítið snúist um hvað verið sé að banna og hvað ekki, að verið sé að banna allt of mikið. Menn hafa nefnt hér bann við kaup á vændi, það var umdeilt á sínum tíma. Bann við súludansi var líka svolítið umdeilt. Nú er verið að tala um að banna 18 ára og yngri að fara í ljósabekki, sumum þykir það nú voða ljótt líka. Ég vil halda því til haga að ýmislegt er nú verið að leyfa líka. Við erum t.d. vonandi að samþykkja hér bráðlega eina hjónabandslöggjöf þar sem allir, bæði gagnkynhneigðir og samkynhneigðir, munu geta gift sig á hefðbundinn hátt í kirkju, þótt það hafi í augnablikinu ekki mætt alveg nógu miklum skilningi á prestastefnunni, en það er nú annað mál. Vonandi kemur eitthvað gott út úr þessu að lokum þegar menn hafa áttað sig á því hve sterk viðhorfsbreyting hefur orðið í samfélaginu gagnvart réttindum samkynhneigðra.

Hér er sem sagt enn eitt bannmálið á ferðinni. Ég fagna þessu bannmáli alveg sérstaklega. Þetta er rétt skref sem stigið er að mínu mati í ljósi þeirra upplýsinga sem við fáum jafnt og þétt um skaðsemi geisla á húðina. Það kemur fram að Geislavarnir ríkisins og erlendir aðilar sem þekkja til þessara mála flokka útfjólubláa geisla frá sólarlömpum sem krabbameinsvaldandi. Það stendur hér að á sínum tíma voru geislarnir flokkaðir sem „líklega“ krabbameinsvaldandi. Það hefur verið horfið frá því í ljósi þekkingar og rannsókna þannig að núna eru þeir flokkaðir sem krabbameinsvaldandi, ekki „líklega“ heldur hreinlega sem krabbameinsvaldandi.

Þetta minnir nú svolítið á alla umræðuna sem við fórum í gegnum í sambandi við reykingar. Sú er hér stendur flutti á sínum tíma frumvarp um bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum. Það þótti nú sumum vera gríðarleg frelsisskerðing fyrir þá sem reyktu á skemmtistöðum og töluðu um að það væri eiginlega ekkert sannað í þessum efnum, ekki nógu miklar sannanir á því að óbeinar reykingar hefðu skaðleg áhrif og væru krabbameinsvaldandi. En þær eru það, rannsóknir sýndu það og við fengum meiri og meiri vitneskju, þannig að það var algjörlega eðlilegt að stíga það skref. Það var auðvitað gert vegna vinnuverndar þeirra sem starfa á skemmtistöðum. Allir eiga rétt á hreinu lofti á sínum vinnustað ef hægt er að koma því fyrir. Það var auðvitað hægt í þessu tilviki. Sem betur fer samþykktum við á sínum tíma að banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Núna þykir það algjörlega sjálfsagt og enginn ætlar að stíga það skref til baka, alla vega finnur maður engan þrýsting í þá veru.

Ég held að það sama verði með þetta mál, ég held að þegar búið verður að samþykkja þetta mál og menn líta til baka eftir einhver ár eða jafnvel áratugi muni þeir bara hlæja að því að hér hafi allir getað farið í ljósabekki og meira að segja hafi verið fermingartilboð um það í gangi. Hugsið ykkur, tilboð til fermingarbarna um að leggjast í ljósabekki. Ég held að tíminn muni staðfesta að þetta er gott mál.

Ég held að hér vegist á sjónarmið lýðheilsu og almannaheilla við sjónarmið frelsi atvinnurekandans. Það eru fyrirtæki sem bjóða upp á þessa þjónustu og þeim þykir sjálfsagt súrt í broti að missa hér ákveðinn kúnnahóp, það er þeirra sjónarhorn væntanlega. Svo er það hitt sjónarhornið, lýðheilsusjónarmiðið og sjónarmið um almannaheill. Í mínum huga er þetta mál þess eðlis að það stuðlar að almannaheill. Það mun draga úr tíðni húðkrabbameins. Það er ekkert hvaða krabbamein sem er, af því þetta er mjög alvarlegt krabbamein, þetta er með alvarlegustu krabbameinum sem hægt er að fá. Þetta stuðlar að mínu mati alveg örugglega að almannaheill og mun líka minnka útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Þetta er því líka gott fyrir skattborgarana í heild, ef maður vill leggja þetta mál á þær vogarskálar, sem ég held að sé rétt að gera.

Hérna tel ég að frelsi atvinnurekandans víki fyrir almannaheill og lýðheilsusjónarmiðum og umhyggju okkar fyrir börnum okkar sem halda frekar heilsu af því þau fara ekki í ljósabekki, þau eru í minni hættu gagnvart því að fá húðkrabbamein.

Það er alltaf spurning hvað maður á að ganga langt? Hvað er forræðishyggja og hvað ekki? Það eru mörg grá svæði í því, en í þessu máli tel ég að við séum komin yfir gráa svæðið og komin á hvíta svæðið þannig að mér finnst rétt að stíga þetta skref.

Sú er hér stendur telur að fræðslan ein og sér dugi ekki. Þeir sem þykir þetta mál vera óþægilegt, að það sé jafnvel enn þá á gráa svæðinu eða svarta svæðinu í þeirra huga, munu væntanlega segja: Það er bara fínt að hafa fræðslu, við látum það bara duga og fólk getur valið og við megum ekki taka uppeldið af foreldrum o.s.frv. Ég tel að fræðslan ein dugi ekki í þessu sambandi, það eru það sterk rök fyrir því að þessir geislar séu krabbameinsvaldandi að ég tel að löggjafinn eigi að hugsa mjög skýrt í þessu, huga að almannaheill og stíga þetta skref. Þeir sem eru undir 18 ára aldri fara ekki í geislana nema samkvæmt læknisráði í einhverjum undantekningartilvikum, þeir sem eru eldri gera það bara á sína ábyrgð.

Sú er hér stendur er með mál inni í þinginu sem gengur út á að bólusetja ungbörn gegn pneumókokkum. Það var tekið til umræðu um daginn og fyrir mér var það alveg rétt forgangsröðun að leggja það mál fram þótt hér hafi orðið efnahagshrun og auðvitað mjög mikilvægt að huga líka að því öllu. En það er ekki þar með sagt að við séum ekki að gera neitt í heilbrigðismálum og ekkert að tala um einhver framfaraskref í heilbrigðismálum, alla vega fannst mér það mál vera mikið framfaraskref og var vel tekið undir það. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að hafa talað jákvætt um það mál. Mér finnst þetta vera mál sem lýtur líka að afkomu barna okkar til framtíðar, heilbrigði þeirra. Þetta er mál sem er mjög einfalt í sniðum, þarf ekki að taka langan tíma en getur skilað góðum árangri. Mér finnst mjög vel við hæfi að ræða það hér á þessum tíma á föstudegi, þetta er góður tími fyrir þetta mál að mínu mati. Ég held að við gætum afgreitt það núna í vor, þetta er ekki það flókið mál.

Ég er líka með annað mál sem mig langaði að nefna í þessu sambandi. Það er líka svolítið bannmál, það er að það verði ekki heimilt að selja matvæli sem eru með meira en 2% fitumark, sem er transfitusýra. Það verður sem sagt að vera minna en 2% fitumark transfitusýru í matvælum sem seld eru. Danir hafa stigið þetta skref. Það má ekki selja matvæli þar sem eru með talsvert magn transfitusýra, þ.e. meira en 2% fitumark, og þótti það bara sjálfsagt lýðheilsumál þar. Reyndar ætluðu ákveðnir atvinnurekendur að fara í mál á vettvangi ESB varðandi það. Þeir töldu að þarna væri einhver viðskiptahindrun o.s.frv. en urðu að pakka saman og bakka af því að það var læknisfræðilega hægt að sanna hvað það er skaðlegt að neyta matvæla með mikilli transfitusýru. Danirnir stigu þetta skref og ég vona að við gerum það líka. Það er reyndar ekki búið að samþykkja þetta mál en það liggur hér inni. Norðurlandaráð hefur einmitt fjallað um ákveðið mál og mér finnst það vera mjög líkt þessu máli. Þar er verið að hugsa um hópa sem borða mikið af skyndibitamat, óhollum mat, og er verið að reyna að verja þá, flestir viti að skyndibitamatur og matur sem er með mikið af transfitusýru er óhollur. Menn vita það og mikil fræðsla hefur verið í gangi þar. Fólk gúffar hann samt í sig í of miklu magni. Við Íslendingar erum því miður mjög hátt á lista þar, við erum þar á svipuðum slóðum og Bandaríkjamenn og Austur-Evrópuþjóðir, því miður.

Fyrir mér er sjálfsagt að stíga þetta skref, að verja börnin okkar gegn þessum krabbameinsvaldandi geislum.

Ég tel ekki að við séum að taka ábyrgð af uppalendum. Það er nú auðvelt að vísa hér til bílbeltanotkunar. Af hverju er það í lögum að fólk eigi að nota bílbelti? Hvaða svakalega forræðishyggja er það? Finnst ekki öllum það sjálfsagt í dag? Samkvæmt lögum á fólk að vera með bílbelti og það hefur bara gengið vel og er alveg sjálfsagt.

Ég held að ekki verði mikið mál að fylgja þessu eftir. Ég held það verði auðvelt. Ég tek undir það sem kom fram hér í andsvari hæstv. heilbrigðisráðherra, ég held að þeir atvinnurekendur sem reka sólbaðsstofur muni ekki leggja sig fram um að komast undan þessum lögum, verði þau samþykkt, það held ég alls ekki. Ég held þeir muni bara virða lögin og einbeita sér að öðrum markaðshópi, ekki að börnunum heldur að fullorðnum. Ég held að það verði ekkert mál að fylgja þessu eftir.

Síðan langar mig hér í lokin, virðulegur forseti, af því það er svolítið merkilegt hvernig tíðarandinn er, að nefna að einu sinni var svakalega flott að vera hvítur og vera fölur, það þótti smart að vera fölur. Konur gengu með barðastóra hatta til þess að fá ekki sólargeislana á sig, það var ímynd vel stæðs fólks að vera ekki sólbrúnt heldur hvítt af því að þannig tíðkaðist það í heldri manna stofum á meðan þeir sem tilheyrðu lægri stéttum samfélagsins voru sólbrúnir af því þeir þræluðu á akrinum o.s.frv. Þetta hefur allt snúist við og núna þykir fallegt að fólk sé útitekið og brúnt. Margir hafa nú gengið af göflunum í þeim efnum og eru svakalega brúnir og kunna sér ekki hóf. Þeir eru beinlínis brúnkufíklar — ég man ekki hvað það heitir, það er eitthvað voða fínt sem það kallast. (REÁ: Tanorexía.) Já, tanorexía heitir það. Ég er að vonast til þess að þetta fari kannski að snúast við, að það fari að verða fínt aftur að vera hvítur af því sólarbekkir valda hækkaðri tíðni húðkrabbameina og það gera líka sólargeislar almennt. Nú gæti einhverjum frelsisofstækismanninum dottið í hug að segja: Eigum við ekki bara að banna fólki að vera úti í sólinni? Auðvitað gerir það enginn, þar verður fræðslan því miður að duga til, en vonandi kemst það aftur í tísku að fólk sé ekki svona mikið brúnt, það sé þá hæfilega brúnt eða bara jafnvel frekar fölt, (Gripið fram í: Það er mjög töff.) það er mjög töff, er kallað hérna fram í.

Mig langaði að segja í lokin sögu um ákveðið viðhorf sem ég heyrði um daginn. Ég læt hana bara flakka hérna þó að hún sé kannski ekkert við hæfi: Maður hitti konu sem var brún. Hún hafði verið úti á sólarströnd og hann sagði við hana: Svakalega ertu brún og flott, þú færir svo vel á hvítu laki. Þetta fannst mér sýna svolítið þetta viðhorf, að brúnt sé eitthvað svakalega flott og eftirsóknarvert. Ég held að menn hafi ýtt allt of mikið undir það í orðræðunni almennt að það sé mjög fallegt að vera brúnn. Ég vona að tískan breytist og það verði fallegt að vera hvítur eða bara hæfilega útitekinn.

Ég held að þetta mál sé brýnt og að það sé lítið mál að fylgja því eftir. Við vitum nóg. Það er búið að rannsaka nóg. Skaðsemin er það mikil að það er réttlætanlegt að stíga þetta skref. Þetta er ekki forræðishyggja, það er sjálfsögð umhyggja fyrir börnum að verja þau fyrir sólarbekkjum þannig að ég er tilbúin til þess að samþykkja þetta mál, ég er líka tilbúin til þess að liðka fyrir því þannig að það verði klárað hér í vor.