138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:43]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er dálítið skondið þegar maður fer í andsvar við ræðu að vera spurður á móti. (SF: Það er ekki bannað.) Nei, það er nefnilega ekki bannað, frú forseti, það er þess vegna sem þetta getur stundum verið svolítið skemmtilegt af því hlutirnir eru ekki allir bannaðir. (Gripið fram í.)

Ég get svarað hv. þm. Siv Friðleifsdóttur hér og nú. Ég mun hvorki styðja þetta frumvarp né leggja til að sólar- eða ljósabekkir verði bannaðir fyrir alla aldurshópa, svo það sé sagt. Ég vitnaði í þetta vegna þess að ég hef áhyggjur af þessu orðalagi: „Útfjólublá geislun eykur marktækt líkur á húðkrabbameini“. Ég finn eiginlega til með öllu því fólki sem býr í suðrænum löndum og þá kemur þessi frelsisofstækistilhneiging mín fram. Ég veit ekki hvort þeir sem gáfu þetta út og rannsökuðu þetta hafi farið í gegnum hversu há krabbameinstíðnin er, fjöldi sortuæxla og annað þess háttar, hvort slíkt er algengt í suðurhluta Evrópu, í löndum Afríku og annars staðar. Hefur það verið rannsakað? Vitum við það eða eru það eingöngu ljósalamparnir og útfjólubláa geislunin sem skipta máli? Á hverju byggjum við þetta frumvarp í raun? Hvar liggja þessar rannsóknir fyrir? Hér er vitnað í norrænar geislavarnastofnanir, sameiginlega yfirlýsingu geislavarnastofnana. Veit hv. þingmaður hvort fyrir liggja rannsóknir á tíðni sortuæxlis hjá fjölmennum þjóðum í suðurhluta Evrópu þar sem sólin skín og þar sem útfjólubláa geislunin er töluverð?

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, frú forseti, að ég mun hvorki styðja þetta frumvarp né heldur leggja til að aldurstakmarkið verði hækkað né lækkað.