138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:45]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá liggur það fyrir að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisnefnd styður ekki þetta mál. Allt í lagi, það er alveg hægt að (RR.: Einstaklingurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir.) færa rök fyrir því.

Sú orðræða sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór hér með, um rannsóknirnar, minnti mig á orðræðuna um reykingar — þessar rannsóknir, hinar rannsóknir; draga allar rannsóknir í efa. Óbeinar reykingar eru örugglega ekkert voðalega óhollar. Hvaða rannsóknir sýna það? Þetta er nákvæmlega sama orðumræðan og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór með þegar við vorum að ræða bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum, nákvæmlega sama orðræðan. (RR: Svaraðu.)

Í greinargerðinni kemur fram að búið er að rannsaka þetta mál það mikið, það verður örugglega rannsakað meira, að Alþjóðlega rannsóknarstofnunin í krabbameinsfræðum í Lyon, IARC, sem starfar á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, flokkar frá 29. júlí 2009 þessa útfjólubláu geisla frá ljósabekkjum sem „krabbameinsvaldandi“ en ekki sem „líklega krabbameinsvaldandi“. Rannsóknirnar eru því að mínu mati skýrar. Ég trúi þessu. Það eru líka svo margar aðrar rannsóknir sem styðja þetta.

Hér var líka rætt um fólk sem býr í suðrænum löndum. Allir sem hafa fylgst með umræðunni um lofthjúpinn á norðurhveli vita að þó að sólin skíni ekkert gríðarlega mikið hér er frekar hátt hlutfall útfjólublárra geisla frá sólinni hér í norðri vegna ýmissa aðstæðna í loftinu. (Forseti hringir.) Þó að við búum ekki í suðrinu stafar okkur líka hætta af sólinni.