138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:53]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég eltist nú við að fara í andsvar af að því mér finnst þetta vera grundvallarumræða. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir telur að þetta sé forræðishyggja. Þá vil ég spyrja: Telur hv. þingmaður líka að það sé forræðishyggja að börn megi ekki reykja og kaupa sígarettur eða drekka áfengi? Er það forræðishyggja? Ef það er ekki forræðishyggja, af hverju ekki? Af hverju er þetta þá forræðishyggja? Öll þessi atriði eru skaðleg heilsu barna, það er búið að sanna það. Hver er munurinn á þessu?

Þetta er ein spurningin, svo er það hin: Hvað með bílbelti, sem á reyndar við fullorðna líka, af hverju höfum við það í lögum að fólk eigi að vera í bílbelti og börn eigi að vera í viðurkenndum öryggisbúnaði í bíl? Það er vegna þess að þetta eru forvarnir, okkur þykir vænt um íbúana, þetta er almannaheill. Er það forræðishyggja? Er það forræðishyggja að banna börnum að reykja og drekka? Er það forræðishyggja að hafa lög um bílbelti? Fyrst það er forræðishyggja í huga hv. þingmanns að vernda börn og unglinga gegn ljósabekkjum sem í ákveðnum tilvikum valda krabbameini, mjög hættulegu húðkrabbameini, spyr ég um þetta.