138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:56]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, þetta er grundvallarumræða. Ég sagði það áðan, ég veit ekki hvort hv. þingmaður var í salnum, að þetta lýsti einmitt grundvallarafstöðu minni versus þingmannsins og ég nefndi hæstv. ráðherra líka. Er það forræðishyggja að banna börnum að reykja og drekka? Það er sjálfsagt forræðishyggja fólgin í því og í mörgum löndum er ekki aldurstakmark á neyslu áfengis. Ég þekki ekki til hvort alls staðar er bannað að reykja, en það hefur þó vakið athygli víða að þar sem ekki er aldurstakmark á neyslu áfengis, eins og verið hefur í mörgum suðrænum löndum, er áfengisvandamál minna en þar sem lögin eru ströngust. Ég er því ekki viss um að það að banna hlutina sýni sig endilega í betri árangri.

Hvað það varðar að setja lög um að fólk verði að vera með bílbelti og þess háttar atriði ég er ekki á móti því að við komum í veg fyrir að fólk verði fyrir skaða vegna þess sem vitað er að veldur skaða. Það er ekki það sem þessi umræða snýst um. Ég mundi setja barnið mitt í bílbelti sjálf þó að það væri ekki bundið í lög og ég mundi sjálf fara í bílbelti. Og ég get alveg upplýst það hér að ég er ekki á móti lögum um bílbelti. Þetta snýst ekki um það. Ég er heldur ekki að mæla því bót að öll börn innan 18 ára fari í ljós eða eigi (Forseti hringir.) að flykkjast í ljósabekki bara af því að það er farið að banna það. Ég er á móti þeirri aðferð að banna þetta í staðinn fyrir að koma (Forseti hringir.) viðhorfinu um að þetta sé skaðlegt með öðrum hætti til skila.