138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[15:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vill svo til að ég hafði nóterað niður það sem ég sagði hér um 18 ára aldursmark þeirra sem væru mögulega að vinna á þessum ljósabekkjastofum. Ég sagði að ég teldi að ástæðan væri sú að það hefði sýnt sig að þeir sem væru 18 ára og yngri framfylgdu ekki eins vel banninu við að selja tóbak og þeir sem eldri væru. Þetta er bara könnun. Nei, hv. þingmaður, ég sagði að það hefði sýnt sig í könnunum og það væri ástæðan fyrir því að þarna hefði verið dregin lína.

Hv. þingmaður spyr af hverju ekki sé gerð tillaga um að banna ljósabekki almennt fyrst þessir geislar séu svona stórhættulegir. Ef hv. þingmaður les greinargerðina og hefur hlustað svolítið á þær umræður sem hér hafa farið fram er skýringin einfaldlega sú að þessir geislar eru hættulegri börnum en fullorðnum (Gripið fram í: Þeir eru líka hættulegir …) — þeir eru hættulegri börnum en fullorðnum. Það sem meira er, hv. þingmaður, börn hafa kannski ekki sama vit og fullorðnir til þess að verjast þeim (Gripið fram í.) — til þess að verjast þeim.

Ég verð að segja að lokum að ég orðaði það svo hér áðan að kannski vantaði nú töluvert í þessa greinargerð af eðlisfræði, geislafræði og ljósmælingum. Ég vænti þess að hægt verði að upplýsa það allt með fulltrúum frá Geislavörnum ríkisins í hv. heilbrigðisnefnd.