138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[16:00]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Glíman við 100 milljarða fjárlagahalla stendur yfir og sú glíma verður ekki unnin nema allir þættir ríkisútgjalda séu skoðaðir og skólamálin geta ekki verið þar undanskilin. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja sem flestum framhaldsskólanemendum skólavist og líta verður á skipulagsbreytingar og aðhaldsaðgerðir út frá því sjónarhorni. Meðal annars með það í huga er þetta frumvarp samið. Hugmyndin er sú að gera breytingu á lögum um framhaldsskóla sem samþykkt voru á árinu 2008 þannig að ákvæðum þeirra sem leiða til aukinna útgjalda ríkisins verði frestað. Þannig er lagt til að vinnudagar nemenda verði áfram 175 í stað 180 og nýjar námsbrautir sem krefjast verulegra breytinga koma seinna sem námsframboð með því að fresturinn er lengdur til ársins 2015. Einnig er skuldbindingum létt af skólum varðandi vinnustaðanám þar sem skólar geta ekki sinnt þeim við núverandi aðstæður. Hins vegar er mikilvægt þegar efnahagslægðin er gengin yfir að skólar fari með umsýslu með námssamningum, gerð og skráningu samninga um vinnustaðanám nemenda sinna.

Heimild til að fela skólameistara forstöðu í fleiri en einum skóla getur skipt máli við skipulag skólastarfs á ákveðnum svæðum, bæði við ákvörðun námsframboðs á svæðinu en einnig vegna hagræðingar í rekstri. Við notkun slíkrar heimildar er þó mikilvægt að líta til aðstæðna hverju sinni og til reynslu, t.d. í Svíþjóð, af svipuðu fyrirkomulagi. Rannsóknir á innra starfi skóla, sem starfa nokkrir með einum skólastjóra, hafa verið gerðar og af þeim ætti að læra í þessu sambandi.

Við hrun fjárlagakerfisins gjörbreyttust allar forsendur og fjármál ríkisins voru sett í uppnám eins og okkur öllum er kunnugt og fjárhag fjölskyldna, fyrirtækja og heimila stefnt í voða. Þetta er sú staðreynd sem við horfumst í augu við. Við fjárlagagerð fyrir árið 2011 þarf markmiðssetning að vera skýr þannig að forgangsröðun og áherslur ráði ákvörðunum. Í kreppunni hefur aðsókn að framhaldsskólum aukist. Það er mikilvægt fyrir samfélagið í heild að skólakerfið geti tekið við ungmennum svo ekki sé minnst á einstaklingshagsmuni sem eru gríðarlegir. Því er nauðsynlegt að gera slíkar ráðstafanir sem boðaðar eru með því frumvarpi sem hér um ræðir.

Í öðrum þeim aðgerðum sem fara þarf í á næstu skólaárum vegna minna fjármagns til reksturs skóla má ekki missa sjónar á nauðsyn þess fyrir samfélagið og einstaka ungmenni að fjöldatakmarkanir nemenda verði ekki frekar en orðið er í framhaldsskólum landsins. Með það að leiðarljósi verða stjórnvöld og fagmenn innan skólanna að mæta lausnum við rekstur framhaldsskólans. Huga þarf að breytingum sem eru til bóta og aðgerðum sem valda sem minnstum skaða fyrir ungmenni á framhaldsskólaaldri sem gera má tímabundið og sem auðvelt er að taka til baka þegar við höfum unnið glímuna við fjárlagahallann.