138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

opinberir háskólar.

579. mál
[16:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra vegna 4. gr. þar sem annars vegar fer frá fulltrúi ráðherra og inn kemur fulltrúi háskólasamfélagsins — erum við að tala um sama fulltrúafjölda í háskólaráði?

Í öðru lagi langar mig að spyrja um 11. gr. sem fjallar um endurmenntunina af því að það hefur sætt gagnrýni, eins og þar stendur, að farið sé á svig við gjaldtökuheimildir 2. mgr. 24. gr. laga um opinbera háskóla með því að boðið sé upp á nám til fyrstu og síðari háskólagráðu og innheimt fyrir það, að það sé andstætt lögum um opinbera háskóla. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað þýðir þetta í raun? Þýðir þetta að háskólinn hættir að bjóða upp á þetta nám af því að hann hefur hingað til getað innheimt gjöld eða mun háskólinn halda áfram að veita þessa þjónustu og þá taka það af einhverju öðru? Þetta hlýtur með einhverjum hætti að koma við fjárhag skólans og spurningin er hvort hæstv. ráðherra hafi hugmynd um á hvern hátt og þá hugsanlega hvernig háskólinn bregðist við.

Ég fagna þeim breytingum sem gerðar eru á 10. gr., og læt það koma hér fram, um að stjórnsýsla hvers háskóla annist skipulag og framkvæmd prófa og þar með sé nemendum gefið tækifæri til þess að sækja háskólanám í fleiri en einum háskóla. Það er af hinu góða, frú forseti.