138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skipan og kjör seðlabankastjóra.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rangt sem fram kemur í fyrirspurn hv. fyrirspyrjanda að gefin hafi verið loforð um ráðningu þess seðlabankastjóra sem nú er í Seðlabankanum. Hv. þingmaður veit mætavel hvernig að því var staðið. Staðan var auglýst og það voru nokkrir sem sóttu um, ég man ekki hve margir. Síðan var skipuð alveg sérstök nefnd valinkunnra manna sem fór yfir umsóknirnar, lagði mat á þær og greindi síðan forsætisráðuneytinu frá niðurstöðu sinni. Eftir þeim var nákvæmlega farið og því sem kom fram hjá þessum þremur mönnum sem til þess voru fengnir. Hvenær það var skipað man ég ekki nákvæmlega, hvort það var í ágúst eða september í fyrra.

Varðandi aðrar ráðningar sem hv. þingmaður ýjar að að séu án auglýsinga í ráðuneytum vil ég segja að um ráðningar án auglýsinga gilda alveg sérstakar reglur. Það er heimilt að ráða án auglýsinga þegar um er að ræða fæðingarorlofsleyfi, sumarafleysingar o.s.frv. en af þessu gefna tilefni vil ég líka upplýsa að það er nefnd að störfum á vegum forsætisráðuneytisins sem er að fara yfir ráðningarmál og stjórnarhætti almennt í Stjórnarráðinu. Henni var sérstaklega falið að fara yfir ráðningarmál almennt og setja fram reglur þar að lútandi.