138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skipan og kjör seðlabankastjóra.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skal svara þessu alveg skýrt. Það hefur engin ákvörðun verið tekin í forsætisráðuneytinu um að seðlabankastjóri yrði ráðinn á sérkjörum. Ákvörðun um hvenær seðlabankastjóri var ráðinn, sem valinn var úr hópi nokkurra sem sóttu um — ég man ekki hvort þeir voru fimm eða sex — var fyrst tekin þegar fyrir lá niðurstaða þriggja manna nefndar sem var sérstaklega til þess kölluð að fara yfir umsóknirnar og gefa forsætisráðuneytinu álit. Þá fyrst var ákveðið hver skyldi hljóta þessa stöðu.

Varðandi ráðningar án auglýsinga eru reglurnar alveg skýrar: Það er heimilt að ráða án auglýsinga í störf sem eiga að standa í tvo mánuði eða skemur. Það er líka heimilt að ráða ef um afleysingar er að ræða, eins og ég nefndi áðan, vegna veikinda, orlofs, barnsburðarleyfis o.s.frv. En eins og ég sagði er verið að fara yfir þessi mál og mun væntanlega skýrast á næstu dögum eða vikum hvaða reglur munu í framtíðinni gilda um þetta.