138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

kjör seðlabankastjóra.

[10:39]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Þessa dagana þurfa um 16.700 Íslendingar að sætta sig við atvinnuleysi og þeir sem enn eru í vinnu hafa langflestir þurft að taka á sig verulegar kjaraskerðingar og launalækkanir. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja eiga heimili þessa lands í verulegum fjárhagsvandræðum og eiga í miklum erfiðleikum með að ná endum saman.

Á sama tíma berast fréttir af því að formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, sem er fulltrúi Samfylkingarinnar í bankaráðinu, hafi lagt til að laun seðlabankastjóra verði hækkuð um 400 þús. kr. á mánuði eða um 4,8 millj. á ári ofan á þær líklega 14 millj. sem hann hefur í laun á ári. Það verður ekki annað sagt en að norræna velferðarstjórnin ætli sér að gera vel við sína menn. Það hefur verið upplýst að með tillögunni hafi formaður bankaráðsins, Lára V. Júlíusdóttir, verið að standa við loforð sem seðlabankastjóranum var gefið að líkindum þegar hann var ráðinn eða í tengslum við ráðninguna.

Samkvæmt heimildum sem fjölmiðlar hafa aflað sér mun loforðið um launahækkunina til seðlabankastjórans hafa verið gefið í forsætisráðuneytinu. Hæstv. forsætisráðherra hefur reyndar verið á harðahlaupum undan þessu máli og virðist ætla að reyna að koma því yfir á einhverja aðra. En engum dylst að tilraunir hennar eigin fulltrúa í bankaráðinu til að hækka laun seðlabankastjóra eru lagðar fram á ábyrgð forsætisráðherra.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra eftirfarandi spurninga og fer fram á skýr svör við þeim:

1. Hvenær var þetta loforð gefið? Hver gaf loforðið og hver hafði frumkvæði að því að það var gefið? Í umboði hvers var loforðið gefið og hverjir höfðu vitneskju um það?

2. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að upplýsa líka um eftirfarandi: (Forseti hringir.) Hafði formaður bankaráð Seðlabankans samráð við hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra áður en þessi tillaga var lögð fram í bankaráðinu?