138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

kjör seðlabankastjóra.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Svarið við síðustu spurningunni er nei, það var ekki haft samráð við forsætisráðherra eða fjármálaráðherra um þetta mál. Ég hef gefið alveg skýr svör í þessu máli. Það hafa engin loforð eða fyrirheit verið gefin enda ekki á mínu færi að gefa slík loforð. Laun seðlabankastjóra fara eftir lögum og ákvæðum um Seðlabankann og ekki síst niðurstöðu kjararáðs. Ég sé ekki eftir niðurstöðu kjararáðs að það sé eitthvert svigrúm til þess að beita ákvæðum sem eru í seðlabankalögunum í þessu efni til að hækka launin.

Það er tvennt sem liggur fyrir: Að seðlabankastjóri sjálfur hefur sagt að hann mundi ekki taka við slíkri launahækkun þó að hún væri í boði og að formaður bankaráðs hefur sagt að líklega verði niðurstaðan sú að þessi hugmynd og tillagan sem liggur fyrir bankaráðinu verði dregin til baka. Það hafa engar ákvarðanir verið teknar í forsætisráðuneytinu enda ekki á færi þess né ráðherra um að gefa slík loforð. Það fer eftir lögum um Seðlabanka og niðurstöðu kjararáðs. Niðurstaða kjararáðs liggur fyrir og ég sé ekki annað en að í það stefni að eftir henni verði farið vegna þess að auðvitað á að fara eftir niðurstöðu kjararáðs í þessu efni.