138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

kjör seðlabankastjóra.

[10:43]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég get ekki tekið undir það hjá hæstv. forsætisráðherra að svör hennar í þessu máli hafi verið skýr, síður en svo. Það liggur fyrir að formaður bankaráðs Seðlabankans hefur upplýst um það og það liggur fyrir hjá bankaráði Seðlabankans að tillagan var lögð fram. Hún var lögð fram vegna þess að seðlabankastjórinn fékk í sinn vasa loforð um að kjör hans yrðu með þeim hætti sem tillagan sagði fyrir um. Það var hvorki meira né minna en sérstakur trúnaðarmaður hæstv. forsætisráðherra sem lagði tillögurnar fram og ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra hafi vitað af þessari tillögu, a.m.k. er hún á ábyrgð hæstv. forsætisráðherra. Ég bið hæstv. forsætisráðherra um að svara spurningum mínum um það hvenær þetta loforð sem tillagan er rökstudd með var gefið, (Forseti hringir.) hver gaf loforðið, í umboði hvers og hverjir höfðu vitneskju um að hækka ætti laun seðlabankastjóra um 400 (Forseti hringir.) þús. kr. meðan almennir launþegar lepja dauðann úr skel.