138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

launastefna ríkisstjórnarinnar.

[10:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er athyglisvert að heyra svör hæstv. forsætisráðherra hér við frambornum fyrirspurnum á Alþingi. Ég hef ekki enn heyrt það að hæstv. ráðherra hafi neitað því að hún hafi vitað að fyrirheit hafi verið gefið gagnvart Má Guðmundssyni seðlabankastjóra um að hann fengi hærri laun en kveðið er á um í dag. Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki neitað því. Ef hæstv. forsætisráðherra veit ekki um slík fyrirheit líkt og formaður bankastjórnar Lára V. Júlíusdóttir hefur talað fyrir í fjölmiðlum, veltir maður fyrir sér: Hvers lags forsætisráðherra er þetta sem veit ekki grundvallarupplýsingar um grundvallarstofnun í íslensku samfélagi og kjör forustumanns þeirrar stofnunar? Það er mikilvægt að við fáum skýr svör frá hæstv. forsætisráðherra í þessari umræðu hér vegna þess að hæstv. forsætisráðherra neitar að tala við fjölmiðla. Hún neitar að veita viðtal vegna þessa máls sem segir okkur að það er eitthvað falið í þessu máli sem ekki hefur komið fram enn og við verðum að nota sal Alþingis til þess að grennslast fyrir um það.

Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort henni sé kunnugt um það að Landsbankinn hafi nú þegar stofnað dótturfélag til þess að yfirtaka önnur dótturfélög í rekstri bankans. Hvað þýðir það? Mögulega getur það þýtt að forsvarsmenn þeirra dótturfélaga heyra ekki undir lög sem kveða á um að laun slíkra einstaklinga skuli ekki vera hærri en laun forsætisráðherra. Það er verið að tefja það mál endalaust. Það liggur fyrir fyrirspurn í fjármálaráðuneytinu frá kjararáði um hvort lögin eigi að ná yfir stjórnendur þessara dótturfyrirtækja Landsbankans. Ég hélt að það þyrfti ekki að spyrja um slíkt ef menn hefðu skoðað þá umræðu sem hér fór fram (Forseti hringir.) en málið tefst og tefst á meðan verið er að skerða kjör Íslendinga. Hvort sem þeir eru á opinbera markaðnum eða hinum almenna eru forustumenn þessara fyrirtækja enn (Forseti hringir.) á sömu laununum, sömu súperkjörunum.