138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

dómstólar.

[10:51]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Það er ein skýrasta niðurstaða rannsóknarskýrslunnar að stjórnendur og eigendur íslensku bankanna gengu fram með vægast sagt afar glæfralegum hætti um þær eignir sem þeir voru þar að véla um. Ég hygg að það hafi komið flestum okkar verulega á óvart hversu glæfralega menn gengu þar fram.

Það er alveg ljóst, og við höfum þegar rætt það hér í þingsölum, að fram undan er gríðarlegt álag á íslenskum dómstólum vegna þeirra mála sem koma inn í dómskerfið í kjölfar bankahrunsins. Sérstakur saksóknari hefur boðað fyrstu ákæruna núna á næstu dögum, ég hélt reyndar að hann hefði hugsað sér að gera það fyrir lok aprílmánaðar. Einhver dráttur hefur orðið á því en það er alla vega vitað að það styttist í fyrstu ákærur í þessum erfiðu málum.

Hæstv. dómsmálaráðherra fékk heimild til þess að ráða fleiri héraðsdómara, ég hygg að það hafi átt að vera búið að ljúka þeirri ráðningu. Mig langar til að grennslast fyrir hjá ráðherranum um hvernig gengur að ráða þá dómara sem Alþingi heimilaði að ráðnir yrðu til þess að létta á héraðsdómstólum landsins. En fyrst og fremst langar mig að spyrja hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra hvaða skoðun hún hefur á því að setja á hér millidómstig, jafnvel með sérþekkingu á sviði efnahagsbrota, til þess að auka réttaröryggi þegar kemur að þessum viðamiklu málum. Ég spyr um það vegna þeirra mála sem nú eru að koma inn í dómskerfið og vegna þess hversu sértæk þau eru og ekki síst vegna þeirrar reynslu sem við höfum af svokölluð Baugsmáli sem tók afar langan tíma. Að nokkru leyti fékkst ekki almennilega úr því máli skorið vegna þess hvernig okkar réttarkerfi er.

Það er alveg óásættanlegt fyrir okkur Íslendinga að það sé einhver hætta á því að úrvinnsla þessara mála sé ekki með fullnægjandi hætti eða þannig að við getum vel við unað þegar upp er staðið.