138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

takmarkanir RÚV á auglýsingamarkaði.

[10:58]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru erfiðir tímar á íslenskum fjölmiðlamarkaði eins og víðar í okkar atvinnulífi og það er raunverulega hætta á því að fjölbreytni á þessum markaði minnki vegna erfiðra rekstrarskilyrða fjölmiðlanna. Ég tel að eitt mikilvægasta hlutverk stjórnvalda við þessar aðstæður sé að jafna sem kostur er samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla þannig að í landinu verði öflugt ríkisútvarp sem sinnir almannaþjónustuhlutverkinu með sóma en að jafnframt sé skapað svigrúm fyrir einkarekna fjölmiðla til að veita Ríkisútvarpinu verðuga samkeppni og aðhald.

Ríkisútvarpið nýtur sem kunnugt er framlaga frá skattborgurunum í gegnum svokallað útvarpsgjald og einnig í gegnum viðbótarframlag úr ríkissjóði, nemur það 3,2 milljörðum kr. á þessu ári. Þessu til viðbótar keppir Ríkisútvarpið sem kunnugt er á auglýsingamarkaði án verulegra takmarkana ef undan er skilið bann við auglýsingum RÚV á netinu. Þörfin fyrir aðgerðir til þess að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðlanna, þ.e. Ríkisútvarpsins annars vegar og einkarekinna fjölmiðla hins vegar, hefur líklega aldrei verið meiri en nú. Það er nauðsynlegt fyrir samfélagsumræðuna í landinu, ekki síst í kjölfar bankahrunsins, að í landinu séu öflugir fjölmiðlar sem keppa í eðlilegu samkeppnisumhverfi. Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort til standi að grípa til aðgerða sem takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaðnum, og ef svo er í hvaða farvegi þau mál eru.