138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

takmarkanir RÚV á auglýsingamarkaði.

[10:59]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er ekki nýtt að þetta mál sé til umræðu hér í þessum sal og tengist nýju frumvarpi um heildarlög um fjölmiðla sem nú er í menntamálanefnd. Mér er kunnugt um að þangað hafa komið umsagnir þar sem er bent á þennan vanda íslenskra fjölmiðla.

Það er rétt að annars vegar hafa tekjur RÚV komið úr útvarpsgjaldinu og í raun með viðbótarframlagi frá ríkinu, og hins vegar auglýsingum. Á síðasta rekstrarári var u.þ.b. fjórðungur tekna RÚV af auglýsingum. Ég hef sagt það oft í umræðu um þetta að æskilegast væri að RÚV væri ekki á auglýsingamarkaði frekar en önnur ríkisútvörp í nágrannalöndunum. Hins vegar hef ég ávallt látið það fylgja að þá þurfi að hafa ráðrúm til að bæta RÚV þennan skaða því að um leið og við ræðum þetta gerum við gríðarlegar kröfur á RÚV. Niðurskurðartillögum þar hefur almennt verið mótmælt, líka í þessum sal.

Ég hef í raun og veru litið á þetta frumvarp til fjölmiðlalaga sem fyrsta áfanga í endurskoðun á fjölmiðlum því að vandinn er raunverulegur fyrir fjölmiðla sem starfa á markaði. Ef mig rekur rétt minni til var hér til umfjöllunar frumvarp um skorður á starfsemi RÚV á auglýsingamarkaði haustið 2008. Það var í tengslum við hækkun á útvarpsgjaldi. Hækkun útvarpsgjaldsins var þá samþykkt en þessu máli var frestað og ætlanin var að setja það í sérstakan starfshóp sem síðan, ef ég man rétt, tók ekki til starfa. Ég tel eðlilegt ef fjölmiðlafrumvarpið fer í gegn í þinginu að þessi mál verði skoðuð því að það er sjálfsagt að við skoðum það að setja starfsemi RÚV á auglýsingamarkaði einhverjar skorður í tengslum við það fyrirkomulag á tekjustofnum RÚV sem tekið var upp. Því miður hefur það líka orðið umtalsvert deiluefni hér í þessum sal, meira að segja hjá þeim sem studdu það fyrirkomulag á sínum tíma. (Forseti hringir.) Í kjölfar þessa máls finnst mér eðlilegt að næsta skref sé að við förum (Forseti hringir.) yfir tekjustofna RÚV og gerum það hér á þessum vettvangi.