138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

takmarkanir RÚV á auglýsingamarkaði.

[11:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ef mig rekur rétt minni til voru þessar ábendingar einmitt settar fram í tengslum við það frumvarp sem ég nefndi áðan. Það skiptir máli að við skoðum þetta sérstaklega í þjónustusamningnum sem gerður er milli menntamálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins því að þetta tengist líka þeim skuldbindingum sem við höfum gengist undir í Evrópusamstarfi og ESA hefur gert athugasemdir við, þ.e. að þær tekjur sem aflað er í gegnum auglýsingar fari ekki í samkeppnisrekstur. Ætlunin með þjónustusamningnum er að hafa eftirlit með þessu. Hins vegar hefur skilgreiningin á almannaútvarpi verið þar nokkuð víð svo því sé haldið til haga, þ.e. þar er ekki verið að útiloka afþreyingu, íþróttir eða annað slíkt sem stundum er haldið fram að sé ekki hlutverk almannaútvarps að sinna. Hins vegar er það tvímælalaust skilgreint út frá því í þessari tilskipun og í Altmark-dómnum frá 2003 sem m.a. snerist um þetta.

Ég hef hins vegar litið svo á að það sé m.a. okkar hlutverk í þjónustusamningnum og (Forseti hringir.) sem nú er til endurskoðunar.