138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil ræða fundarstjórn forseta því að ég tel að hæstv. forseti eigi að geta beitt sér fyrir því í þágu Alþingis að við fáum skýr svör í þessu máli. Það liggur fyrir, frú forseti, að vilyrði var gefið núverandi seðlabankastjóra um 400.000 kr. launahækkun sem gengur þvert gegn stefnu ríkisstjórnarinnar er kemur að launastefnu hennar. Þessi ákvörðun virðist hafa verið tekin á bak við núverandi stjórnvöld af einhverjum trúnaðarmönnum Samfylkingar og Vinstri grænna og við höfum því miður ekki fengið upplýsingar í þinginu um það hverjir tóku þá ákvörðun. Ég bið frú forseta um að beita sér fyrir því að Alþingi Íslendinga fái skýr svör við þeim spurningum sem við höfum lagt fram. Ég vek sérstaka athygli á því að forsætisráðherra hefur neitað að ræða þessi mál við fjölmiðla (Forseti hringir.) og það er mjög alvarlegt (Forseti hringir.) ef hæstv. forsætisráðherra á að komast upp með slíkt.