138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Okkur þingmönnum gefast örfá tækifæri til að spyrja ráðherra út í aðgerðir þeirra og gefin loforð. Ráðherra ber samkvæmt lögum að upplýsa Alþingi um hvernig staðið er að málum í stjórnsýslunni. Það er fullkomlega eðlilegt að spurt sé út í þessi mál, sérstaklega í ljósi þess að seðlabankastjóri hefur sjálfur upplýst að honum hafi verið gefin loforð um þessa launahækkun á æðstu stöðum. Lára V. Júlíusdóttir segir það sama. Nú veltir maður fyrir sér hver hafi gefið þessi loforð. Hver annar en hæstv. forsætisráðherra er fær til að gefa þessi loforð? Það er í rauninni engan annan að spyrja en hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra, eða getur aðstoðarmaður hennar gefið slík loforð? (Forseti hringir.) Maður veltir þessu fyrir sér.