138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:11]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Róberti Marshall að upp í þennan ræðustól komu þrír hv. þingmenn til að spyrja hæstv. forsætisráðherra sömu spurningarinnar. Ástæðan var sú að hæstv. forsætisráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem til hennar var beint og ég er að vekja athygli hæstv. forseta á því að á þessu þurfi að verða breyting.

Það lýsir alveg ótrúlegum hroka hjá hv. þm. Róberti Marshall að kalla það einhverjar málfundaæfingar þegar þingmenn á Alþingi gera athugasemdir við það að á meðan 16.700 Íslendingar eru atvinnulausir og megnið af þjóðinni hefur þurft að taka á sig kjaraskerðingar leggi fulltrúi Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans til að laun seðlabankastjóra verði hækkuð um 400.000 kr. á mánuði. Þetta kallar hann málfundaæfingar.

Ég beini því til hæstv. forseta að það verði kannað sem fram kom í svari hæstv. forsætisráðherra sem sagðist ekkert (Forseti hringir.) hafa vitað um þessa tillögu, þ.e. hvort formaður bankaráðs Seðlabankans hafi með tillögu sinni farið á svig (Forseti hringir.) við lög og reglur sem gilda um kjaramál opinberra starfsmanna. [Kliður í þingsal.]