138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

svör ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur áður komist til tals undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, hvort óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra séu nægilegur vettvangur til að fá skýr svör. Fjölmargir þingmenn vilja gjarnan spyrja marga ráðherra margvíslegra spurninga sem einmitt snúa að nauðsynlegu eftirliti þingsins með framkvæmdarvaldinu. Þess vegna er ekkert óeðlilegt þegar slíkt mál kemur upp að efstu menn í stjórnkerfinu virðast, að því er fjölmiðlar segja, búnir að gefa loforð um launahækkanir sem síðan stjórnvöld, hæstv. forsætisráðherra, kannast ekkert við. Er stjórnkerfið sem sagt enn stjórnlaust? Taka menn enn ákvarðanir hvar sem er? Hver ber ábyrgð á þessari ákvörðun? Það hlýtur að vera einhver. Það er verkefni okkar á þinginu að fá svör við því. (Forseti hringir.) Ef ekki koma skýr svör er ekki óeðlilegt að það sé þráspurt þangað til skýr svör fást.