138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir þessa umræðu. Það vill svo til að ég stóð fyrir utandagskrárumræðu um lífeyrissjóðamálin í sumar. Þá voru svör hæstv. fjármálaráðherra á annan hátt því að svo virtist vera að ráðherrann væri þá ekki búinn að gera sér grein fyrir því hversu alvarlega lífeyrissjóðirnir standa.

Það hefur átt sér stað mikil sóun á fjármunum lífeyrissjóðanna undanfarin 10–15 ár. Rekstrarkostnaður er hár og eftir þeim upplýsingum sem ég hef kostaði rekstur lífeyrissjóðskerfisins alls árið 2007 tæpa 3 milljarða. Það sjá allir sem sjá vilja að þetta er afar mikil sóun á opinberu og almennu fé og er algerlega óásættanlegt. Þarna sést hversu mikil sjálftaka hefur verið stunduð inni í þessu kerfi af þeim stjórnendum sem þar starfa. Auðvitað eru lífeyrissjóðirnir hér allt of margir. Auðvitað eiga bara að vera tveir eða þrír lífeyrissjóðir á almenna vinnumarkaðinum. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er rekinn með ríkisábyrgð þannig að þeir ríkisstarfsmenn sem greiða í sjóðinn, sem er skylda að greiða í, hafa ríkisábyrgð á sínum eftirlaunum. Þarna er mikið ójafnvægi eins og hefur komið fram. Verði tap á þeim sjóði taka skattgreiðendur það á sig og þurfa að greiða það auk þess að þurfa að mæta skerðingum hjá sínum eigin lífeyrissjóðum. Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra alltaf talsvert fastur í fortíðinni. Það vantar framtíðarhugsun, það vantar einhverja nýja hugsun, síðast en ekki síst í starf þessarar ríkisstjórnar.

Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hefur það eitthvað verið skoðað hvort ekki eigi hreinlega að leggja niður Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, (Forseti hringir.) nota þá fjármuni sem þar eru inni í það að laga til í ríkisrekstri og taka hreinlega (Forseti hringir.) upp gegnumstreymissjóðskerfið hjá starfsmönnum ríkisins (Forseti hringir.) því að lífeyrissjóðurinn er hvort eð er með ríkisábyrgð?