138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:31]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hrunið dró fram hið innbyggða ójafnræði launafólks á Íslandi hvað varðar lífeyrisréttindi sem kemur fram í mismuninum á almennum og opinberum sjóðum og formaður Sjálfstæðisflokksins fór yfir áðan. Ég verð þó að segja, frú forseti, að ég varð hálfhissa á því hvað hann var kokhraustur í því að ræða að ekki yrði skert afturvirkt í hinu opinbera kerfi. Þar erum við að tala um rúmlega 500 milljarða kr. skuldbindingu þar sem hver og einn þyrfti að greiða 4% meiri tekjuskatt á ári í 25 ár og það eru fyrir ríkissjóð um 28 milljarðar kr. á ári í 25. ár. Hv. þingmaður barðist eins og ljón í marga mánuði fyrir lægri skuldbindingar en þetta.

Ég er þó sammála því að fara þarf mjög varlega í þessi mál þar sem mjög stórar kvennastéttir hafa sætt sig við lág laun á forsendum þess að þær byggju þó við atvinnuöryggi og góð lífeyrisréttindi enda er það þannig að einstaklingar sem hefja vinnu við 25 ára aldur, annar á almenna markaðnum og hinn hjá hinu opinbera og hafa 300.000 kr. í tekjur á mánuði, munu við 67 ára aldur hafa ólíkan lífeyri, sá hjá hinu opinbera 280.000 kr. en sá sem er í almennum sjóðum 80.000–100.000 kr. lægri fjárhæð á mánuði. Fyrir 20 árum var lagt fram á Alþingi frumvarp sem hafði það að meginmarkmiði að búa til samfellt lífeyriskerfi sem tæki til allra landsmanna, tryggði öllum viðunandi lífeyri og yki jöfnuð meðal landsmanna sem lífeyris eiga að njóta. Það frumvarp varð því miður ekki að lögum. Þetta markmið á jafnmikið við í dag og ég vona að starfið sem fram fer á vegum stöðugleikasáttmálans skili okkur frumvarpi með sömu markmiðum.