138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég á sæti í nefndinni sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þar hefur verið rætt um að jafnvel þurfi að gera sérstaka úttekt og rannsókn á lífeyrissjóðunum sem eitt af augljósum viðbrögðum nefndarinnar við skýrslunni sem við fjöllum um. Í frétt á RÚV í morgun kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa afskrifað um 86 milljarða króna vegna skuldabréfa í fyrirtækjum og fjármálastofnunum. Frá þessu er sagt í fimmtudagsblaði, og netútgáfu, Viðskiptablaðsins . Mestar eru afskriftir hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, eða sem nema 37 milljörðum króna. Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur afskrifað 26 milljarða og Lífeyrissjóðurinn Gildi 23 milljarða króna. Viðskiptablaðið segir þetta koma fram í uppgjörsgögnum frá sjóðunum þremur og upplýsingum frá stjórnendum þeirra. Sjóðirnir þrír haldi samanlagt á um helmingi eigna íslenska lífeyrissjóðakerfisins.“

Mér skilst að sjóðfélagar geti ekki fengið upplýsingar um fjárfestingar sjóðanna sem þeir kalla eftir samanber þrautagöngu Ragnars Þórs Ingólfssonar í þá veru um langa hríð en hann hefur kallað eftir sjálfsögðu gagnsæi í fjárfestingu sjóðanna. Mig langar því að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvort einhver vinnsla sé í gangi um að það sé gagnsæi í fjárfestingum sjóðanna og að sjóðseigendur, við, fólkið í landinu, hafi aðgengi að því eins og vera ber.

Þá langaði mig jafnframt að inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hver uppskera hans í lífeyri sé miðað við t.d. verkakonu í krónum talið.