138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum um hina mikilvægu lífeyrissjóði sem eru mjög mikilvægir í sparnaði í landinu og til að tryggja afkomu þjóðarinnar í framtíðinni. Við ræðum um það að sjóðirnir fóru mjög óvarlega eins og ýmsir aðrir sem voru að ávaxta peninga sína. Harma ber þau áföll og töp sem sjóðirnir hafa orðið fyrir. Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að rannsaka hvað olli og hvað brást í fjárfestingarstefnunni og finna þar með út hvað betur má fara til lengri tíma í framtíðinni. Það hefur auðvitað verið staðfest fyrir löngu, m.a. í lokafjárlögum fyrir árið 2008 sem lögð hafa verið fram í þinginu og eru til umfjöllunar í fjárlaganefnd, að hækka þurfi á árinu 2008 lífeyrisskuldbindingar ríkisins um allt að 35 milljarða kr. vegna þeirra áfalla sem opinberu sjóðirnir hafa orðið fyrir. Áður hefur komið fram hversu gríðarlega háar þær fjárhæðir eru sem eru skuldbindingarnar gagnvart ríkinu varðandi framtíðarskuldbindingar B-deildarinnar og raunar sjóðanna í heild.

Þessi umræða um skerðingar og hvernig það kemur svo við einstaka sjóðfélaga hefur áður verið til umræðu og það er mikilvægt að halda því til haga að það er samtenging á milli lífeyrisgreiðslna og greiðslna frá Tryggingastofnun þannig að hluti af því sem skert er núna hjá lífeyrissjóðunum kemur beint á ríkissjóð í auknum framlögum í gegnum Tryggingastofnun. Þar er líka hægt að gleðjast yfir því, ef hægt er að segja það, að þá er hægt að tryggja a.m.k. því fólki sem er með lágmarkslífeyri 180.000 kr. í tekjur sem einstaklingar eða 153.000 í tekjur sem hjón að lækkunin í lífeyrissjóðunum hjá þeim ef ekki er um aðrar tekjur að ræða bætast að fullu hjá Tryggingastofnun ríkisins þó að það falli á ríkissjóð.

Niðurstaðan af þessari umræðu verður væntanlega sú að hér verði rannsókn á því hvað gerðist hjá lífeyrissjóðunum, hvernig betur megi fara með stjórn lífeyrissjóða, minnka rekstrarkostnað og bæta umhverfi hvað varðar lífeyrissjóðanna. Við verðum auðvitað í framhaldinu að vinna að því þótt til lengri tíma sé að samræma kjörin hjá almennu sjóðunum (Forseti hringir.) við lífeyrissjóði opinberra starfsmanna þannig að kjörin verði sambærileg til framtíðar.