138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún hefur verið ágæt og eins og ég vék að í fyrri ræðu minni er mismunurinn á milli almenna kerfisins og opinbera kerfisins mér tilefni til þessarar umræðu. Það kom fram hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að ég væri fullkokhraustur að segja að við skyldum ekki skerða réttindin afturvirkt en það er einfaldlega ekki heimilt og vilji menn fara þá leið að draga úr réttindum sem þegar eru áunnin munu menn þurfa að greiða fyrir það bætur. Þetta er alveg skýrt samkvæmt lögunum. Ég horfi fyrst og fremst fram veginn og spyr mig: Getum við náð sátt við aðila vinnumarkaðarins, við þá sem hér eiga hlut að máli? Það er sanngjarnt og eðlilegt að menn segi t.d.: Þetta er hluti af heildarkjörum okkar opinberra starfsmanna, það er sanngjarnt og eðlilegt, en rökin sem voru upphaflega fyrir því að vera með þessi ríku lífeyrisréttindi fyrir opinbera starfsmenn eru ekki lengur öll til staðar. Upphaflega var það vegna þess að launin voru svo miklu lægri. Það hefur að verulegu leyti breyst. Upphaflega var það vegna þess að menn fengu ekki iðgjöld af yfirvinnu. Því var breytt með aðlögunarsamningunum 1997. Þá var m.a.s. greitt af óunninni yfirvinnu inn í lífeyrissjóðakerfið þannig að margt hefur breyst á tímabilinu og við hljótum öll að vera sammála um að til lengri tíma litið viljum við hafa lífeyrisréttindi sem eru sjálfbær þar sem iðgjöld launþegans og launagreiðandans eiga að standa undir réttindaávinnslunni. Við getum ekki haft kerfi þar sem opinberir starfsmenn eru í þeirri stöðu að verða varðir alveg óháð ávöxtun sjóðanna og þar með komi upp sú staða sem ég lýsti áðan, að maðurinn í næsta húsi við opinbera starfsmanninn þurfi á sama tíma að sæta skerðingu sinna réttinda í almenna kerfinu og sæta því að þeim fjármunum sem hann greiðir í skatta sé varið til að tryggja rétt opinberra starfsmanna. Það er ekki sanngjarnt (Forseti hringir.) og við eigum að efna til umræðu af yfirvegun og í góðu samráði við hagsmunaaðila hér til að brjótast út úr þessari leið og stoppa upp í götin.