138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

484. mál
[12:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp sem er flutt vegna athugasemda frá EFTA. Mig langar til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, Árna Pál Árnason, að því hvort Íslendingar hafi færi til þess að koma athugasemdum til EFTA þegar eitthvað frá því ágæta sambandi brýtur greinilega í bága við heilbrigða skynsemi.

Ef ég man rétt, frú forseti, kom 1997 lítið frumvarp inn í Alþingi sem var þannig að hlutafélögum og einkahlutafélögum væri heimilt að lána starfsmönnum til kaupa á hlutabréfum. Þetta fór í gegnum Alþingi nánast viðstöðulaust. Það mátti ekki bara lána starfsmönnum fyrir kaupum á hlutabréfum heldur líka tengdum aðilum starfsmannanna, þ.e. gefinn var möguleiki á því að starfsmaðurinn stofnaði hlutafélag um þessi kaup þannig að hann gæti bara grætt en ekki tapað. Hver og einn getur orðið starfsmaður fyrir hádegi og hætt svo eftir hádegi og í millitíðinni keypt fyrir hundruð milljóna. Þetta varð til þess að menn keyptu óhemju mikið af hlutabréfum með lánum og bættu stöðu hlutafélaganna því að skuldabréfið, þ.e. lánið, var talið sem eign en hlutabréfið ekki sem skuld. Einnig breyttist eignarhaldið. Peningarnir fóru hring, fyrst frá hlutafélaginu til starfsmannsins og aftur til baka samtímis, þannig að það skipti ekki máli hvort hann keypti fyrir 100 milljónir eða 200 milljónir. Þá allt í einu, frú forseti, fóru Íslendingar að sjá hugtakið milljarður og 10 milljarðar og 100 milljarðar og 1.000 milljarðar.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, vegna þess að við erum einmitt að ræða svona athugasemd frá EFTA, hvort við höfum einhver tæki til þess að benda EFTA á þegar þeir gera einhverjar vitleysur.