138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þetta svar. Ég segi bara, nú erum við að tala saman, vegna þess að það þarf að aðgreina eftirlitsstofnunina frá framkvæmdarvaldinu. Ég hef lagt til að nefndir þingsins komi meira við sögu og jafnvel undir fullum trúnaði. Einni nefnd þingsins ber að halda trúnað samkvæmt lögum og það er hv. utanríkismálanefnd. Sagan kennir okkur það að það þarf að fara mjög varlega með þetta gífurlega vald, þessa dulúð sem er í barnaverndarmálum, og í rauninni hefur lítið sem ekkert breyst. Það er lítið sem ekkert sem kemur í veg fyrir þau ósköp sem gerðust í Breiðavík. Ég vil að menn í hv. nefnd skoði að þessi eftirlitsstofnun og það mundi jafnvel — þingið gæti að sjálfsögðu flutt um það frumvarp, að þessi eftirlitsstofnun yrði kjörin af félagsmálanefnd þingsins. Þangað kæmu mál og foreldrar, sem telja sig órétti beitta eða barnið sitt, gætu snúið sér til nefndarinnar undir fullum trúnaði og óskað eftir úrbótum á lögum eða reglum, án beinnar kæruheimildar, heldur til að vekja athygli á einhverjum vanda sem kæmi upp. Þetta vantaði þegar Breiðavíkurheimilið var starfrækt. Margir foreldrar vissu hvað gerðist þar en gátu ekki snúið sér neitt. Það væri ágætt út af þrískiptingu valdsins að það væri Alþingi eða nefndir þingsins sem tækju þetta mál og könnuðu hvort þyrfti að breyta lögum, reglum eða eftirliti með starfseminni.