138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal ræðir um frumvarp til laga um barnavernd og þá mikilvægu ábyrgð okkar að huga að vernd og líðan barna í íslensku samfélagi. Ég kem hér upp því þingmaðurinn, frú forseti, hefur lagt til að félags- og trygginganefnd breytist í einhvers konar úrskurðarnefnd barnaverndarmála. Ég vara við þessari hugmynd, því ég held að í barnaverndarmálum sé fólk með mikla sérþekkingu og reynslu af starfi með börnum sem búa við mismunandi aðstæður og hafa mátt þola mismunandi meðferð. Í mínum huga lyktar þetta af fyrirgreiðslupólitík sem ég veit að hv. þingmaður er ekki — það er ekki það sem hann er að hugsa um. Ég veit að hv. þingmanni gengur gott eitt til. Hann vill tryggja að ekki sé hægt að brjóta á réttindum fólks þegar börn eru t.d. tekin í vistun utan heimilis.

Ég spyr hv. þingmann hvernig hann sér hlutverk nefndarinnar fyrir sér og telur hann nefndina hafa þekkingu og reynslu til þess að meta hið rétta í málunum? Þetta eru mjög flókin mál. Þetta eru tilfinningaþrungin mál og varða kjarnann í lífi okkar sem manneskjur. Telur hann að við níu sem sitjum í nefndinni, öll ágætisfólk, séum til þess fallin að meta hvað sé rétt og hvað sé rangt í barnaverndarmálum?