138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

barnaverndarlög.

557. mál
[12:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að koma upp og endurtaka að ég er ósammála hv. þm. Pétri Blöndal. Varðandi það að fólk geti komið til nefndarmanna og óskað eftir lagabreytingum, þá er þetta sú regla sem viðhöfð er á Alþingi í dag. Við sitjum sem fulltrúar íslenska ríkisborgara hér á Alþingi og það eru allir í aðstöðu til að koma til okkar ábendingum. Hér spretta upp fjölmörg frumvörp og þingsályktunartillögur, einmitt vegna slíkra ábendinga. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður leggi til, frú forseti, að það verði sérstaklega kveðið á um þetta í lögum um barnavernd.

Ég vil líka mótmæla þessari umræðu um sérfræðinga. Ég held að sé mjög heppilegt að sérfræðingar útbúi lagafrumvörp, en það er að sjálfsögðu hlutverk okkar alþingismanna að leggja pólitískar línur sem eiga að vera til grundvallar í markmiðum og tilgangi slíkra frumvarpa. Ég segi það vera fyllilega eðlilegt að félags- og tryggingamálanefnd ræði um hvers konar eftirlitsstofnanir við viljum hafa hér í samfélaginu og síðan gætum við t.d. með þingsályktunartillögu kveðið á um hvaða atriði við vildum að kæmu fram í slíku frumvarpi. Við höfum ólíkar skoðanir á því hvernig Alþingi á að koma að lagasetningu þó ég vilji auka völd þingsins en við eigum að gera það með pólitískri stefnumótun en ekki endilega með því að skrifa frumvörpin. Ég held að það sé aukaatriði. Við skulum svo sannarlega leggja hinar pólitísku línur.