138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:06]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo oft, bæði í sambandi við þetta frumvarp, umferðarlög og ýmislegt annað, þar sem takast á sjónarmið gagnvart margmenninu á höfuðborgarsvæðinu og svo aftur á landsbyggðinni þar sem miklu færri búa. Hvað varðar lágmarkið, sem hv. þingmaður nefndi, fimm ökukennarar, sé ég það fyrir mér að það gerist á þann hátt að aðilar geti stofnað saman ökuskóla ef þannig ber undir og náð þessum fjölda. En aðalatriðið verður þá það líka að ökuskólarnir verða meira að vinna á svipaðan hátt alls staðar og meira samræmt þannig að meiri og heildstæðari mynd komi á ökukennsluna. Ég held að þetta sé atriði sem verður auðvelt fyrir ökukennara á landsbyggðinni eins og hv. þingmaður þekkir vel og ég þekki vel til líka: Einn ökukennari starfandi á svæði — þeir finna sér farveg í þessu eins og ýmsu öðru og ég held að þetta verði ekki neitt vandamál.