138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan var þetta mikið rætt. Að mati nefndarinnar er þetta ekki inni og ekki sett inn. Mitt mat sem ráðherra, sem tek svo að mér þetta frumvarp frá nefndinni og flyt það til Alþingis, er það að ég set það ekki inn. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að álitaefnin eru mörg. Það var reyndar eitt atriði sem ég tók út úr frumvarpinu, og það var ákvæði um að unglingar yngri en 18 ára, eða hvort það var 20 ára, mættu ekki vera saman í bíl á ákveðnum tíma sólarhrings um helgar. Þá var þessi spurning sett fram í einhverju blaði: Hvað ef 18 ára par er að koma heim úr skírnarveislu eða giftingarveislu með barn í bílnum, á að banna þeim að keyra um? Mér fannst þetta of langt gengið og verð að viðurkenna að þetta er það eina í tillögu nefndarinnar sem ég bað um að tekið yrði út úr frumvarpinu áður en það kæmi til þings.