138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

umferðarlög.

553. mál
[14:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. ríkisstjórn væri nær að styrkja lögregluna í verkefnum hennar og útvega henni nægt fé til að hún geti starfað með eðlilegum hætti, í stað þess að búa til nýja lögreglu sem á að hafa vald yfir ákveðnum tegundum af ökutækjum. Ef ég skil greinina rétt og frumvarpið er meira að segja verið að leggja til, hæstv. ráðherra, ekki aðeins að Vegagerðin ákæri, ef má orða það svo, heldur rannsaki líka og kveði upp úrskurð á einum og sama vettvanginum. Það getur varla verið það sem við óskum eftir í dag, að einhver stofnun hafi slíkt vald.

Síðan er spurning hvort sum brot eigi að láta til Vegagerðarinnar, og miða við einhverja ákveðna þyngd á ökutæki, og þeir aðilar skulu sæta stjórnvaldssektum en jafnvel ekki brot sömu ökumanna á sömu umferðarlögum.. Ég held að þetta þurfi verulegrar skoðunar við.