138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir spyr hvort aðrar hindranir séu í veginum fyrir því að framkvæmdir geti komist á fullt skrið. Það má segja að mikilvægustu hindruninni verði rutt úr vegi ef við berum gæfu til að samþykkja frumvarpið hér í þinginu. Það er rétt að enn þá eru viðfangsefni til meðferðar í fjármálaráðuneytinu sem snúast um að greiða úr álitamálum varðandi meðferð á virðisaukaskatti. Það getur haft talsverða þýðingu fyrir möguleika Verne að ná samningum við viðskiptavini til fyrirtækisins í framtíðinni. Þarna er verið að bera umhverfið sem við á Íslandi getum boðið fyrirtækjum á þessu sviði varðandi endurgreiðslu á virðisaukaskatti, sérstaklega innflutningi á ýmiss konar tækjabúnaði sem gagnaverin þurfa að nota í sínum rekstri, saman við það sem þekkist innan Evrópusambandsins. Þessum málum hefur þokað fram, en á þessum tímapunkti er málið ekki leyst og ég veit að fulltrúar iðnaðarráðuneytisins eru í stöðugu sambandi við fjármálaráðuneytið um að greiða úr þessu. Ég bind vonir við að það gerist á allra næstu dögum eða vikum.

Þessi atriði tengjast ekki eingöngu þessu tiltekna gagnaveri, þetta mun hafa talsverð áhrif á starfsemi allra gagnavera sem vonandi koma hér í kjölfarið.