138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það, eins og kom fram í framsögu minni og svari við fyrirspurn hv. þm. Óla Björns Kárasonar, að skoðun mín er sú að við eigum að nota þetta tækifæri í tengslum við frumvarp um ívilnanir til þess að setja í gang vinnu við að skoða hvort við getum fléttað inn tilteknum ákvæðum sem lúta að siðferðilegri ábyrgð fyrirtækja. Þetta yrðu almenn ákvæði og ég gef mér ekki neina niðurstöðu fyrir fram um það með hvaða hætti þau yrðu útfærð í frumvarpinu. Í frumvarpinu, eins og það kemur frá ráðherra, eru nefnd níu skilyrði sem menn þurfa að uppfylla til þess að eiga möguleika á því að njóta ívilnunar. Þar er ekki í dag minnst á neina siðferðilega þætti. Mín skoðun er að við eigum að freista þess í meðförum nefndarinnar að bæta úr því þannig að lokaútgáfan taki tillit til þessara sjónarmiða sem eru hávær í samfélaginu og af fullkomlega réttlætanlegum ástæðum.