138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég leiðrétti að ég var ekki að þakka hv. þingmanni fyrir spillinguna í Samfylkingunni heldur var ég að þakka henni fyrir að hafa bent á spillinguna í Samfylkingunni með svona afgerandi hætti eins og kemur fram í nefndarálitinu.

Ég vil líka þakka þingmanninum fyrir þá rannsóknarvinnu sem hún hefur greinilega lagt á sig við vinnslu þessa nefndarálits. Neðst á bls. 2 kemur fram hvernig þetta fyrirtæki, Verne Holdings, hefur auglýst orkuna okkar og landið okkar fyrir erlendum aðilum. Þar kemur fram, með leyfi forseta: „Frystið orkuverðið í 10 til 20 ár“. Fyrirtækið er farið að auglýsa að hér sé mjög ódýrt að reka gagnaver af þessu tagi. Við vitum að gagnaver á Íslandi þurfa ekki að eyða orku í að kæla sig niður því að hér er frekar kalt og þess vegna ætti Ísland náttúrlega að vera stórkostlegur fjárfestingarkostur fyrir venjulega, heiðarlega fjárfesta til framtíðar eins og kom fram í máli hv. þm. Skúla Helgasonar þegar hann talaði fyrir málinu í annað sinn að fjárfestar biðu í röðum eftir að koma hingað með gagnaver. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórnin leggur til að byrja svona þessa glæstu, jafnvel erlendu, framtíðarfjárfestingu sem við fáum nú færi á með því að velja þennan aðila sem nú er til umræðu og hefur svo ekki sé meira sagt afar svarta fortíð á Íslandi og meira að segja heppnaðist ekki fyrsta fjárfestingin sem þessi aðili kom að hér á Íslandi betur en svo að hann skuldar enn þá Landsbankanum.