138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[16:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því sem ég talaði um í fyrri ræðu, að ég teldi að hér væri um spillingu að ræða. Það vill þannig til að sá aðili sem hér um ræðir, Vilhjálmur Þorsteinsson, er varaþingmaður Samfylkingarinnar. Hann er eigandi að Verne Holdings fyrirtækinu og hann er formaður nefndar iðnaðarráðherra sem fjallar um orkustefnu Íslands, hvert skal stefnt og í hvað orkunni skuli ráðstafað. Þetta er alveg skýrt. Og ef þarna skarast ekki hagsmunir, þá veit ég ekki hvar skarast hagsmunir. Þetta er komið fram og hefur vakið athygli fjölmiðla í allan dag.

Mig langar til þess að fara aftur í tímann, því ég hef verið að lesa mikið í rannsóknarskýrslunni sem birtist fyrir nokkru. Eins og allir vita þá geri ég fyrst og fremst athugasemd við eignarhald fyrirtækisins. Hins vegar fagna ég allri erlendri fjárfestingu í landinu og vil að sjálfsögðu búa landi og þjóð umhverfi þar sem flestir geti lifað og starfað. En ég er ekki á þeirri skoðun, eins og hefur komið fram hjá samfylkingarfólki, að það sé alveg sama hvaðan gott kemur, eða hvaðan vont kemur. Nú þurfum við að stíga fyrstu skref okkar sem þjóð, eftir hrunið, út í alþjóðasamfélagið á nýjan leik og byggja upp traust hjá alþjóðasamfélaginu. Alþjóðasamfélag mitt nær út fyrir Evrópusambandið, svo því sé haldið til haga.

Það hefur komið fram í máli formanns iðnaðarnefndar að þetta sé ófært, því samningurinn gangi ekki í gegn án þess að hafa Novator innan borðs. Annars hrökkvi allir hinir fjárfestarnir burtu. Við könnumst við þetta. Við könnumst við svona hótanir frá þessum aðila. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar í kafla 6.3.5, „Samskipti Samsonar og stjórnvalda í söluferli Landsbankans“, bls. 270, koma eftirfarandi hótanir fram, með leyfi forseta:

„… 16. október 2002, skrifuðu forsvarsmenn Samsonar bréf til formanns einkavæðingarnefndar, […] þar sem gengið var lengra og sagt beint út að ef sá hlutur sem Samson yrði boðið að kaupa væri minni en 45,8% væri það mat þeirra að „ekki [væri] verjandi út frá áhættu að færa svo mikla fjármuni erlendis frá til fjárfestingar hérlendis“.“

Þarna hóta þeir því beinlínis að ef íslensk stjórnvöld á þessum tíma lúti ekki vilja þeirra, verði ekkert af fjárfestingunni. Þá hafa þeir ekki áhuga á að koma að kaupum á bönkunum. Þetta er í miðju einkavæðingarferlinu. Svo segir á spássíu, með leyfi forseta:

„Ofangreint tilboð gildir til kl. 17:00 fimmtudaginn 17. október 2002. Að öðrum kosti lítur Samson svo á að ríkið hafi slitið viðræðum við félagið.“

Þetta er nokkuð kunnuglegt miðað við málflutning formanns iðnaðarnefndar í dag. Ef Novator fær ekki að vera með í gagnaverinu á Suðurnesjunum, hrökkva allir hinir aðilarnir í burtu. Kunnuglegt. Svo má fara ofan í textann og benda á að auðvitað komu ekki neinir erlendir fjármunir inn í íslenskt hagkerfi þegar þessum aðilum var seldur Landsbankinn eins og bersýnilega hefur komið í ljós. Þeir gengu yfir Austurstrætið og tóku lán fyrir Landsbankanum í Búnaðarbankanum. Saga þessa einstaklings hefur verið sorgarsaga, og raunverulega verið sú ein að skuldsetja íslensku þjóðina. Þessi sami maður lét hafa eftir sér í þætti á Stöð 2 að veð hans væru mjög góð, því sjálfir landsmenn væru veðandlagið. Hann taldi sig hafa veð í lífeyrissjóðum landsmanna í ákveðnu fjárfestingamáli. Það var svo sannarlega þannig, enda ber sá aðili sem við fjöllum hér um, Björgólfur Thor Björgólfsson, ábyrgð á Icesave-reikningunum, sem við sjáum ekki enn fyrir endann á. Hann, ásamt viðskiptafélögum sínum, var einn stærsti eigandi Landsbankans og Straums–Burðaráss. Nú hefur komið í ljós, við lestur rannsóknarskýrslunnar, að hann var beinn gerandi í stjórnum bankanna, svokallaður skuggastjórnandi.

Þess vegna er ég nú svo myrkfælin við það að færa þessum einstaklingi upp á nýtt svo mikil gæði sem felast í fjárfestingarsamningi ríkisins við fyrirtækið. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum.

Það hefur komið fram í máli formanns iðnaðarnefndar að fjárfestar bíða í röðum eftir að reka hér gagnaver. Hér er orkan, hér er kuldinn, hér eru tækifærin. Það þarf alltaf einn til að ríða á vaðið, sagði formaður iðnaðarnefndar. Gott og vel. Það þarf ekki að vera akkúrat þessi aðili með þessum hætti, sem — ég hef aldrei séð það fyrr né síðar í lagasetningu — skrifar aflátsbréf til iðnaðarnefndar. Það er meira að segja sem fylgiskjal með nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar.

Frú forseti. Ég hlýt að fara fram á það við íslenska löggjafann að við fáum að setja hér lög í friði. Bretar og Hollendingar reyndu að setja lög fyrir okkur í Icesave-deilunni. Hér er skrifað undir „Virðingarfyllst, Björgólfur Thor Björgólfsson“. Hann er kominn í viðauka í nefndaráliti og farinn að skipta sér af lagasetningu, opinberlega, grímulaust. Við vitum svo sem ekki hvaða þrýstingi þeir aðilar, sem stóðu í útrásinni, beittu þingmenn á sínum tíma, um t.d. Evrópureglurnar og gefa hér allt frjálst. Íslensk löggjöf gekk langtum lengra en EES-samningurinn bauð nokkurn tímann upp á fyrir íslenska þjóð. Það er ekki komið fram enn þá, þó ýjað sé að því í skýrslunni, að hér var öllum gefinn laus taumurinn. Nú er komið aflátsbréf inn í nefndarálit, þar sem viðkomandi aðili heitir því að koma ekki nálægt fyrirtækinu. Það afsalar enginn fjárfestir sér rétti sínum, eins og kemur fram í nefndaráliti, án þess að hafa neitt upp úr því. Það er auðvitað ekkert annað en ríkisábyrgðin sem þetta gengur út á. Fjárfestar í dag hafa ekki eins þolinmótt fjármagn og þeir þurfa, því skyndigróðinn á að vera svo mikill. Í stað þess að fjárfesta í frumkvöðlafyrirtækjum, eins og gagnaver vissulega eru, þá er farið fram á ríkisábyrgð. Það er ríkisábyrgðin sem þessir aðilar voma yfir. Þetta snýst um ríkisábyrgðina. Fyrirtæki, eða kennitala með ríkisábyrgð, er langtum verðmætari pappír í veðsetningum hjá lánastofnunum erlendis og innan lands og þeim aðilum sem reyna að komast yfir eigur Íslendinga og auðlindir. Hún er það sem gefur þessu gildi. Við skulum átta okkur á því. Enginn fjárfestir leggur fjármagn í fyrirtæki og ætlar sér að koma út á núlli.

Það er skrýtið að í nefndarálitinu er mjög oft sagt „kannski“ eða „líkur eru á“ að Novator muni ekki taka þátt í hlutafjáraukningu og annað í þeim dúr. Farin er milda leiðin að því að segja að vissir aðilar ætli svo sem ekki að koma nálægt þessu fyrirtæki framar. En af hverju er þetta fyrirtæki ekki keypt út? Af hverju eru þessir fjársterku aðilar ekki hreinlega búnir að kaupa hlut Novators í félaginu, úr því þetta er svona mikið mál, úr því þessi aðili og félag hans ætlar ekki að koma að fjárfestingu hér meir? Auðvitað er þetta allt saman blekking. Allt saman ein stór blekking. Og ætlið þið að segja mér að það sé tilviljun að Wellcome Trust sé akkúrat góðgerðarsjóður sem fjárfestir á sviði heilsu, lyfja og þróunar á heilbrigðissviði? Við skulum muna hvaða fyrirtæki þessi aðili á, Björgólfur Thor Björgólfsson. Hann á nú hvorki meira né minna en Actavis í Hafnarfirði. Réttara sagt, hann á það ekki, því hann skuldar Deutsche Bank, íslenskum félögum og þrotabúum bankanna, 1.000 milljarða. Þeir koma fram sem skuld íslenska ríkisins á alþjóðavettvangi í reikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þessi 1.000 milljarða skuld mannsins sem árið 2007 keypti upp fyrirtækið og skráði það af markaði, leiðir m.a. til þess að lánshæfismat íslenska ríkisins hefur lækkað. Þetta eru svo rosalega stórar einkaskuldir að þær hafa áhrif á lánshæfismat íslenska ríkisins. Þetta kemur til af því að félagið hefur heimilisfesti hér á landi. 90–95% starfseminnar fer fram erlendis. Af einhverjum ástæðum fóru eigendur Landsbankans samt sömu leið, að hafa heimilisfesti á Íslandi. Þess vegna m.a. er reynt að troða Icesave-skuldbindingum upp á Íslendinga. Það er vegna þess að þetta var rekið í útibúaformi með heimilisfesti á Íslandi, en ekki í dótturfélögum eins og hinir bankarnir gerðu. (BirgJ: Með veði í þjóðinni.) Ha? (BirgJ: Með veði í þjóðinni.) Já, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir segir, með veði í þjóðinni. Svo sannarlega er búið að taka veð í þjóðinni og við horfum upp á fréttir af því síðustu daga að lífeyrissjóðirnir eru hrikalega illa staddir. Það eru sömu aðilarnir, útrásarvíkingarnir, sem komu okkur í þessi vandræði.

Það kemur fram að ein stærsta og mikilvægasta eign Björgólfs er svokallaður eignarhlutur í Actavis. Þessi aðili á einnig hlut í CCP, sem er leikjafyrirtæki, fjarskiptafyrirtækið Nova og hlutinn í Verne Holdings. Þetta er mjög skyldur rekstur og allt snýr þetta að því að hafa aðgang að umheiminum í gegnum sæstreng. Gagnaverið tryggir einmitt þessum aðila aðgang að sæstrengjunum sem liggja til Evrópu, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir fór svo vel yfir.

Í nefndarálitinu kemur fram að samningurinn er með þeim hætti að ekki er hægt að keppa við verðið sem félagið hefur tryggt sér um sæstrengina. Hér er raunverulega um fákeppni að ræða og hún verður ekki samkeppnishæf á nýjan leik. Við skulum sjá hvaða hagsmunir búa að baki. Fyrirtæki í fákeppnisstöðu sleppir ekki svo auðveldlega höndum af því sem það hefur náð, enda sýna viðbrögð mannsins að hann ætlar svo sannarlega ekki að sleppa hendinni af þessum gullmola sem hann hefur náð. Í frétt á vísi.is 14. apríl sl. kemur fram að Björgólfur hafi samið við Deutsche bank um að halda Actavis. Þessi aðili er í miklu skuldauppgjöri. Hann skrifaði aflátsbréf til íslensku þjóðarinnar, sem birtist í fjölmiðlum, þar sem hann fullyrti og lofaði að hann skyldi vinna fyrir kröfuhafa svo lengi sem hann stæði uppi og svo lengi sem kröfuhafar ættu á hann kröfur.

Eins og ég kom inn á áðan, eru erlendar skuldir Actavis 1.000 milljarðar og er verið að endurskipuleggja allan þann rekstur. Þetta er jafnvel einn hluti af ótrúlegri ásókn hans í að halda hlut sínum í fyrirtækinu. Þetta fyrirtæki á eftir að mala gull í framtíðinni, því fyrirtæki á sviði tækni og fjarskipta eiga eftir að margfaldast í verði í framtíðinni. Það má vel vera að erlendir kröfuhafar geri þá kröfu að hann eigi áfram hlut í fyrirtækinu. Það má vel vera að nákvæmlega þetta fyrirtæki, gagnaverið í Keflavík, sé nú þegar metið sem eignarhluti upp í skuldir sem hann skuldar erlendum aðilum. Erlendir fjárfestar, erlendir hrægammar, þeir hugsa í áratugum, ekki mánuðum, eins og íslensk stjórnvöld gera. Hér heima er bara horft rétt fram yfir tærnar á sér á meðan erlendir aðilar horfa á málin í áratugum. Ég hef enda margoft síðan ég varð þingmaður, kallað eftir framtíðarsýn hjá stjórnvöldum. Hvernig sjáum við landið fyrir okkur eftir 30 ár? Hvernig verður umhverfið þá?

Náttúruauðlindanýting, skynsamleg náttúruauðlindanýting, er eina leið okkar sem þjóðar til að koma okkur á fætur á ný og vinna traust erlendis. Við megum ekki vera búin að afhenda allar okkar auðlindir til erlendra og innlendra hrægamma. Það er eitt sem víst er. Við verðum að passa upp á það, sérstaklega nú á þessum tímum þegar þjóðin er brotin. Stjórnvöld virðast komast upp með það sem þau vilja.

Frú forseti. Það eru nefnilega örlagatímar. Örlagatímar eru upp runnir. Eitt af því sem ég hef ekki séð áður er að Alþingi Íslendinga skuli taka þátt í því að setja sérstök lög um einn einstakling og eitt félag. Það stríðir beinlínis móti stjórnarskránni. Það hafa fallið dómar í Hæstarétti þar sem slíku er hnekkt. Það má ekki setja lög hér á landi sem snúast um einstaklinga eða fámenna hópa eða einstök félög. Nú er komið inn á Alþingi enn eitt frumvarpið sem er í tætlum gagnvart löggjafanum. Það er ekki búið að lesa það nægjanlega vel yfir, hvort það stríði gegn stjórnarskrá og öðrum lögum. Þetta eru vinnubrögðin, enda hef ég lagt fram frumvarp um að bæta lagasetningu Alþingis og að hér verði starfrækt lagaráð. Þá værum við ekki að taka þátt í þessari vitleysu sem við þurfum að taka þátt í á hverjum einasta degi.

Þjóðin á skilyrðislaust að njóta vafans í þessu máli. Menn eru saklausir uns sekt er sönnuð. Ég tek það aftur fram. Ef við ætlum að komast á fætur sem þjóð á meðal þjóða, verðum við að rísa upp úr þessum vafa sem fylgir því að draga inn í landið aðila sem voru stórir gerendur í bankahruninu og sem hafa ekki greitt skuldir sínar við samfélagið. Draga inn í landið aðila sem hafði ekki einu sinni fjármagn til þess að kaupa Landsbankann þótt honum hafi verið færður hann á silfurfati. Það kom fram í rannsóknarskýrslunni. Hvers vegna ætti þessi aðili að leggja eitthvað til samfélagsins nú frekar en þá, sér í lagi í ljósi þess að hann er mjög illa staddur fjárhagslega? Eins og ég kom inn á áðan þá hvíla 1.000 milljarðar á Actavis. Þarna er honum ásamt fleirum færð gæði á ný, gæði sem snúa að auðlindum okkar, rafmagni og orkuauðlindum sem hægt væri að nýta á öðrum stað og á skynsamlegri máta og fyrir önnur félög.

Ég fór yfir það í andsvari áðan að ég er fullviss um að ekki verði viðsnúningur í atvinnulífi okkar né áliti erlendra aðila á okkur, fyrr en sú ríkisstjórn sem nú situr hverfur frá völdum. Innan hennar sitja þrír ráðherrar sem voru ráðherrar í hrunstjórninni. Það er gert grín að því að í Afríkuríkjum sé svo léleg stjórn og menn hafi ekki trú á stjórnvöldum. Við sitjum uppi með sama glæpinn hér heima. Við höfum forsætisráðherra í dag sem var ráðherra í hrunstjórninni. Hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, var ráðherra í hrunstjórninni. Hæstv. samgöngumálaráðherra, Kristján Möller, var ráðherra í hrunstjórninni.

Frú forseti. Er nema von að það gangi illa að koma okkur á fætur? Hvers vegna ættu erlendir aðilar að treysta því að þetta fólk sé raunverulega að vinna að hagsmunum þjóðarinnar þegar það brást ekki við í aðdraganda hrunsins, þegar vitað var að hér var allt að fara til fjandans 2007? Nei, þá gaf ríkisstjórnin í. Ríkisstjórnin gaf í, í mars 2008, og fór í kynningarherferð á íslensku bönkunum. Hér væri allt í himnalagi. Seðlabankinn situr uppi með lán á gjalddaga 2011, sem eru timburmenn míníkreppunnar 2006 þegar Seðlabankinn varð að grípa inn í og taka lán til þess að auka gjaldeyrisvaraforðann til að bjarga bönkunum. Frú forseti, bankaskaðinn er tvöfaldur. Lánin sem eru á gjalddaga hjá Seðlabankanum 2011, eru afleiðingar bankanna frá 2006. Þetta er ömurlegt mál. Ég á þá ósk heitasta (Forseti hringir.) að við snúum á braut siðferðisins og byggjum upp samfélag á réttlæti.