138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lykilatriði málsins, eins og hv. þingmaður bendir réttilega á, er að þessi niðurstaða er fengin fram með samningi. Sá samningur er staðreynd vegna frumkvæðis aðilans sem við ræðum um, Björgólfs Thors Björgólfssonar. Við getum ekki lagt mat á það hvað fer í gegnum huga hans þegar hann leggur fram þessa tillögu, en hún kom inn á borð hjá stjórnvöldum. Rétt er að árétta það og leiðrétta, að það er ekki Alþingi sem gerir samning við Björgólf Thor og Novator um þetta atriði. Það er framkvæmdarvaldið, það er iðnaðarráðuneytið sem gerir fjárfestingarsamninginn. Samkomulagið er gert með hliðsjón af þeim gagnrýnisröddum sem komu fram hjá iðnaðarnefnd, svo að samhengi hlutanna sé ljóst í þessu máli.

Ég tel að þingið beri mikla ábyrgðarskyldu og eigi ekki að láta svona mál fara í gegn án þess að taka tillit til siðferðilegra sjónarmiða. Þau flækja vissulega málið, en setja okkur í stöðu sem ég (Forseti hringir.) tel að okkur beri skylda til að takast á við með þeim hætti sem hér hefur verið gert.