138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ.

320. mál
[17:09]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningunni er vandsvarað. Ég held að það geti verið okkur að mörgu leyti mjög erfitt að taka á heildstætt á þessu. Við verðum að átta okkur á því, hvort sem okkur líkur betur eða verr, að eignaraðild aðila sem svo mjög voru tengdir útrásinni og efnahagshruninu, og léku þar kannski lykilhlutverk, er víðtæk í fyrirtækjum í íslensku samfélagi. Við skulum taka sem dæmi fyrirtæki sem gjarnan er hampað af okkur öllum á góðri stundu, leikjafyrirtækið CCP. Umræddur Björgólfur Thor og Novator er stór eignaraðili í því fyrirtæki. Hvað ef það kemur nú til okkar með einhverja bráðsnjalla hugmynd og þarf að fá ívilnandi samning af hálfu hins opinbera? Ætlum við þá að neita því um það, fyrirtæki sem er í raun að mörgu leyti frumkvöðull á ákveðnu sviði i íslensku atvinnulífi, og er brautryðjandi á sviði sem við viljum að eflist mikið í framtíðinni? Menn verða eflaust að meta það hverju sinni hversu langt við viljum fara. En á meðan við erum ekki komin lengra í því en raun ber vitni á Alþingi að móta þessa leið.

Við erum nýbúin að fá rannsóknarskýrsluna. Okkar nefnd vinnur nú úr henni. Meðan við erum ekki komin lengra verðum við að taka afstöðu til þess hvort við ætlum að starfa með fyrirtækjum sem eru að hluta til, eða að öllu leyti, í eigu þessara aðila, eða ekki. Við getum ekki verið með málamyndalausnir, eins og hér eru að fara í gegn, vegna þess að auðvitað (Forseti hringir.) verður þetta fyrirtæki áfram í eigu viðkomandi. Auðvitað fær hann arð af því eftir þessi 10 ár.